Kemst Fjölnir á toppinn?

Fjölnir og Breiðablik mætast í kvöld.
Fjölnir og Breiðablik mætast í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Fjölnismenn fá tækifæri til að komast á topp Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld þegar þeir taka á móti Breiðabliki í elleftu umferð deildarinnar á heimavelli sínum í  Grafarvogi.

Fjölnir er með 19 stig og með mun betri markatölu en FH-ingar sem eru efstir með 22 stig og hafa leikið einum leik meira eftir jafnteflið gegn ÍBV í Eyjum í gær.

Til þess þurfa þó Fjölnismenn að brjóta ísinn og sigra Blika í fyrsta skipti í efstu deild en það hefur þeim aldrei tekist til þessa. Breiðablik hefur unnið fimm af átta viðureignum félaganna í deildinni og þrisvar hafa liðin skilið jöfn. Blikar unnu báða leiki liðanna í fyrra, báða 2:0.

Breiðablik er með 16 stig í fimmta sætinu og má alls ekki við því að tapa leiknum ef liðið ætlar að halda sér í toppslag deildarinnar. Framherjinn Árni Vilhjálmsson er kominn aftur til Breiðabliks sem lánsmaður frá Lillestrøm og er kominn með leikheimild með liðinu.

Í Ólafsvík taka Víkingar á móti Stjörnunni í öðrum leik sem hefur mikið vægi í toppbaráttunni því Ólsarar eru með 18 stig í þriðja sætinu og Stjarnan er með 17 stig í fjórða sætinu. Sigurliðið í þessum leik gæti verið í öðru sætinu þegar deildin er hálfnuð.

Í Árbænum er mikill botnslagur á milli Reykjavíkurliðanna Fylkis og KR en ljóst er að annað þeirra verður í fallsæti að lokinni fyrri helmingi Íslandsmótsins. KR er í 10. sætinu með 10 stig en Fylkir er í 11. sætinu með 8 stig og hefur unnið síðustu tvo leiki sína.

KR-ingar hafa lengi haft góð tök á Fylkismönnum á útivelli en þeir hafa aðeins tapað einu sinni í síðustu ellefu heimsóknum sínum í Árbæinn, og unnið átta þeirra.

Fjórði leikur kvöldsins er svo á Akranesi þar sem Skagamenn, sem hafa unnið þrjá leiki í röð, fá Valsmenn í heimsókn. Valur er með 14 stig í sjötta sætinu en ÍA er með 13 stig í áttunda sætinu.

Valsmenn geta teflt fram þremur nýjum mönnum en Danirnir Kristian Gaarde og Andreas Albech og Sveinn Aron Guðjohnsen sem kom frá HK eru allir komnir með leikheimild með Hlíðarendaliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert