Þetta var þrælskemmtilegur leikur

Stephany Mayor, leikmaður Þórs/KA, reynir að komast framhjá Önnu Maríu …
Stephany Mayor, leikmaður Þórs/KA, reynir að komast framhjá Önnu Maríu Baldursdóttir, leikmanni Stjörnunnar. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar, var hinn kátasti eftir að lið hans hafði unnið góðan 2:1-sigur á Þór/KA í kvöld. Lið hans varð fyrir skakkaföllum í byrjun leiks þegar tveir leikmenn þurftu að fara af velli vegna meiðsla. 

„Önnur meiddist í kálfa og hin aftan í læri. Það verður einhver tími sem fer í að það jafni sig. Við eigum samt eftir að skoða þetta betur á morgun. Það er búið að vera mikil törn hjá okkur núna og hún hefur reynst okkur dýr. Við erum með nokkra meidda leikmenn og tvær á bekknum í kvöld voru aldrei að fara að spila, voru bara til skrauts,“ sagði Ólafur Þór um ástæðu tveggja skiptinga sinna í fyrri hálfleik.

„Leikurinn fannst mér þrælskemmtilegur. Það var mikið um færi og barátta allan tímann við erfiðar vallaraðstæður. Við vorum nokkuð heppin, björguðum á línu og svo kom bara Harpa og kláraði þetta. Hún er alveg ótrúleg og gott að hafa hana inná þarna í lokin. Ég lét hana taka aukaspyrnurnar, bara til að prófa eitthvað nýtt. Hún er með öflugan fót og það kom stundum stórhætta upp úr þessum löngu spyrnum,“ sagði Ólafur Þór enn fremur.

Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með frammistöðu Hörpu …
Ólafur Þór Guðbjörnsson, þjálfari Stjörnunnar, var ánægður með frammistöðu Hörpu Þorsteinsdóttur í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka