Rosenborg bar sigurorð af kýpverska liðinu APOEL Nicosia, 2:1, í fyrri leik liðanna í þriðju umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu sem fram fór á Lerkendal, heimavelli Rosenborg, í kvöld.
Rosenborg komst tveimur mörkum yfir í fyrri hálfleik og fékk síðan á sig mark í seinni hálfleik sem gæti reynst dýrkeypt.
Hólmar Örn Eyjólfsson lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Rosenborg, Matthías Vilhjálmsson kom inná sem varamaður á 79. mínútu leiksins og Guðmundur Þórarinsson sat allan tímann á varmannabekk liðsins.
Celtic náði í góð úrslit þegar liðið mætti Astana í Kasakstan, en lokatölur í þeim leik urðu 1:1. Yuri Logvinenko kom Astana yfir og Leigh Griffiths jafnaði metin fyrir Celtic. Seinni leikirnir í þessum viðureignum fara fram eftir slétta viku.