Nánast orðlaus vegna frammistöðunnar

Árni Vilhjálmsson fagnar marki Breiðabliks í leik liðsins gegn Víkingi …
Árni Vilhjálmsson fagnar marki Breiðabliks í leik liðsins gegn Víkingi í kvöld. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

„Við byrjuðum leikinn vel og það var jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik. Liðin skiptust á að sækja og við náðum fínum sóknum líkt og þeir. Svo gerist bara eitthvað í seinni hálfleik sem ég veit ekki hvernig ég á að útskýra,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, eftir 3:1 tap liðsins gegn Víkingi í 14. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. 

„Víkingar voru miklu grimmari, þeir hlupu meira og það var eins og þeir vildu sigurinn meira en við. Af hverju það var bara veit ég ekki. Það var auðvitað ekki góður undirbúningur að missa Arnór Svein [Aðalsteinsson] út í upphitun, Elfar [Helgason] í upphafi leiks og svo er Damir [Muminovic] vikið af velli með rauðu spjaldi. Það er hins vegar engin afsökun fyrir tapinu,“ sagði Arnar enn fremur.

„Það var mikill doði yfir liðinu í seinni hálfleik og það var eins og menn hafi haldið að þetta kæmi af sjálfu sér. Það svíður jafnmikið að við höfum ekki náð að leika nægjanlega vel í þessum leik og að við höfum ekki náð að nýta okkur að FH og Stjarnan hafi misstigið sig,“ sagði Arnar sem sagðist nánast vera orðlaus yfir því hversu Blikar hefðu verið slakir í seinni hálfleik.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka