Breiðablik sigraði Stjörnuna, 2:1, í 17. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í dag. Breiðablik er með 30 stig í 2. sæti en Stjarnan 27 í 3. sæti deildarinnar. FH er á toppnum með 34 stig og á leik til góða gegn Víkingi Ólafsvík á morgun.
Heimamenn skoruðu fyrsta mark leiksins á 10. mínútu. Þar var á ferðinni Arnþór Ari Atlason. Davíð Ólafsson gaf boltann inn í vítateiginn, Arnþór skallaði boltann, Kerr varði en missti boltann og Arnór fylgdi eftir og skoraði sjálfur.
Stjörnumenn voru ekki lengi að jafna. Þeir fóru beint í sókn og eftir langt innkast Jóhanns Laxdal flikkaði Brynjar Guðjónsson boltanum áfram og Halldór Orri Björnsson mokaði boltanum yfir marklínuna.
Staðan 1:1 að loknum fyrri hálfleik.
Leikurinn róaðist talsvert í seinni hálfleik. Blikar voru líklegri fyrri hluta hálfleiksins en Stjörnumenn tóku völdin undir lokin. Það voru samt sem áður heimamenn sem tryggðu sér öll stigin í dag. Höskuldur Gunnlaugsson skoraði með skalla á síðustu mínútu leiksins eftir aukaspyrnu Olivers Sigurjónssonar og Blikar fögnuðu sætum sigri.