Hetja Breiðabliks, Höskuldur Gunnlaugsson, var brosmildur eftir 2:1-sigur Blika gegn Stjörnunni í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í Kópavogi í dag. Höskuldur skoraði sigurmarkið á 90. mínútu með góðum skalla eftir aukaspyrnu Olivers Sigurjónssonar.
„Þetta er mjög mikilvægur sigur. Kemur okkur aðeins frá Stjörnunni og nær FH, það er helvíti mikilvægt,“ sagði Höskuldur eftir leikinn en hann kom inn af varamannabekknum í seinni hálfleik áður en hann tryggði Blikum sigurinn.
„Það skemmdi ekki að þetta var á móti grannliðinu, það er sætt. Það kom frábær bolti frá Oliver sem fór rétt yfir fyrsta mann og ég náði að lauma mér og skalla boltann inn,“ sagði Höskuldur þegar hann var beðinn um að lýsa skallamarkinu mikilvæga.
Kantmaðurinn knái var varfærinn í svörum þegar hann var spurður að því hvort Breiðablik væri í baráttu við FH um titilinn. FH er með fjögurra stiga forskot á Blika og á leik til góða gegn Víkingi Ólafsvík á morgun.
„Það er allt hægt, fimm leikir eftir og við einbeitum okkur að því að taka einn leik í einu. Við höfum enn þá trú.“