„Ég er mjög ánægður. Galatasaray er stórt og sögufrægt félag og ég er ánægður að vera kominn hingað,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson í viðtali við sjónvarpsstöð Galatasaray í kvöld, en eins og áður hefur komið fram hér á mbl.is er hann genginn í raðir tyrkneska stórliðsins frá franska félaginu Nantes.
„Félagaskiptin gengu fljótt fyrir sig. Ég heyrði af þessu á sunnudaginn og nú er ég hér í dag. Þegar tilboðið kom frá Galatasaray gat ég ekki sagt nei.
Ég er mjög spenntur og ég vil hitta liðsfélaga mína, þjálfarateymið og forráðamenn félagsins eins fljótt og mögulegt er. Ég get ekki beðið eftir að hitta stuðningsmennina og eftir landsleikjahléið kem ég til baka og hitti þá,“ sagði Kolbeinn.