Það var fjölmennt á blaðamannafundi íslenska landsliðsins í knattspyrnu á ólympíuleikvanginum í Kiev í morgun en Íslendingar mæta Úkraínumönnum í fyrsta leik sínum í undankeppni HM annað kvöld.
Landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson og fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sátu fyrir svörum fréttamanna.
„Okkur gekk mjög vel á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar en nú er það búið og ný áskorun er framundan sem hefst með leiknum á móti Úkraínu á morgun. Riðillinn sem við erum í er erfiður og til marks um það tóku fjögur af liðunum þátt í EM í sumar,“ sagði Aron Einar.
„Við erum undirbúnir fyrir mjög erfiðan leik. Við þurfum að halda baráttunni og vinnuseminni, vera agaðir og einbeittir á alla hluti sem við framkvæmum. Við vorum hátt uppi í sumar og við viljum upplifa þá tilfinningu aftur
Spurður út í missinn af Kolbeini Sigþórssyni í leiknum á morgun sagði Heimir.
„Það breytir engu í leikskipulagi okkar. Við höldum bara okkar striki og byggja ofan á það sem við höfum gert undanfarin fjögur ár. Úkraínska liðið er gott og í því eru leikmenn sem spila í Meistaradeildinni og í Evrópudeildinni. Þeir þekkja hver annan mjög vel. Ég veit að Úkraínumenn urðu fyrir vonbrigðum með árangur sinn á Evrópumótinu og þeir vilja nú rétta sinn hlut.
Hvert stig í þessum erfiða riðli sem við erum í verður mjög mikilvægt. Við verðum að vera mjög vel einbeittir í okkar leikjum. Draumur minn í dag er að vinna næsta leik og það er leikurinn á móti Úkraínu. Við þurfum að leggja áfram hart að okkur. Það er ákveðinn pressa á Úkraínumönnunum eftir EM en þar sem það verða engir áhorfendur á leiknum þá gæti það létt pressunni af þeim,“ sagði Heimir.
Spurður hvað hann vilji sjá hjá sínu liði annað kvöld svaraði landsliðsþjálfarinn:
„Velgengnin er engin endastöð. Þetta er stanslaust ferðalag. Þetta verður baráttuleikur á móti Úkraínumönnunum og hreinn bardagi. Bæði lið eru vinnusöm,“ sagði Heimir.