Íslandsmeistarar FH-inga endurheimtu sjö stiga forskoti á toppi Pepsi-deildar karla í knattspyrnu eftir 1:1 jafntefli við Breiðablik í Kaplakrika í kvöld.
FH-ingar færðust þar með skrefi nær titlinum og þeir gengu sáttari af velli heldur en Blikarnir sem eru í harðri baráttu um Evrópusæti en þeir eru jafnir Fjölni í 2.-3. sæti deildarinnar
Árni Vilhjálmsson kom Blikunum yfir þegar komst einn í gegnu vörn FH-inga eftir mistök Bergsveins Ólafssonar miðvarðar FH-liðsins. Markið kom á 32. mínútu en leikmenn Breiðabliks voru varla hættir að fagna markinu þegar Kristján Flóki Finnbogason jafnaði metin eftir góðan undirbúning Böðvars Böðvarssonar.
Leikurinn var í járnum mest allan leikinn og lítið um opin færi en til þess að hleypa einhverri spennu í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn hefðu Blikarnir þurft að landa sigri en þeim hefur ekki tekist að leggja FH-inga í Kaplakrika í efstu deild í 21 ár. Jafntefli voru í heildina séð sanngjörn úrslit eins og leikurinn þróaðist.
FH er með 38 stig í efsta sætinu en Breiðablik og Fjölnir hafa 31.