Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar, fær ekki að stýra sínum mönnum í næstu tveimur leikjum en hann var úrskurðaður í tveggja leikja bann á fundi Aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í gær.
Rúnari var vikið af bekknum í tapi Stjörnunnar á móti Val í Pepsi-deildinni á sunnudaginn og var það í annað sinn sem hann fær reisupassann á tímabilinu. Rúnar verður því ekki á bekknum þegar Stjarnan sækir ÍBV heim á morgun og verður heldur ekki til staðar þegar Stjarnan fær ÍA í heimsókn á mánudaginn.
Haukur Páll Sigurðsson, fyrirliði Vals, var úrskurðaður í eins leiks bann og missir af leik sinna manna á móti FH á sunnudaginn.
Tveir leikmenn Víkings Ólafsvíkur voru úrskurðaðir í bann. Emir Dokara fékk tveggja leikja bann og missir af leikjunum á móti Víkingi og Þrótti og Aleix Egea tekur bann sitt út í leiknum á móti Þrótti á mánudaginn. Auk þess verður aðstoðarþjálfarinn Dzevad Saric í banni á móti Víkingi á morgun.
Þá verður Hallur Hallsson, fyrirliði Þróttar, í leikbanni í leiknum við Víking Ólafsvík á mánudaginn.