Markið er alltaf á sama stað

Gísli Eyjólfsson, leikmaður Breiðabliks, fagnar markinu gegn Val sem Árni …
Gísli Eyjólfsson, leikmaður Breiðabliks, fagnar markinu gegn Val sem Árni Vilhjálmsson lagði upp á hann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við vorum heilt yfir sterkari aðilinn í leiknum og sérstaklega eftir að þeir urðu einum leikmenni færri. Við nýttum vel þau færi sem við fengum og hefðum getað skorað fleiri mörk. Við stefnum á annað sætið úr þessu og ætlum okkur að vinna rest,“ sagði Árni Vilhjálmsson í samtali við mbl.is, en hann skoraði tvö marka Breiðabliks sem sigraði Val 3:0 í 19. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. 

„Guðmundur Benediktsson, stórvinur minn, kenndi mér það á sínum tíma að markið væri alltaf á sama stað. Ég fékk góða sendingu frá Andra Rafni [Yeoman] og náði að taka boltann með mér þannig að hann lá þægilega í góðum skotvinkli. Ég hitti síðan boltann vel og náði að koma honum í nærhornið. Það er mjög gaman þegar maður finnur það að það sé líklegt að boltinn endi í markinu,“ sagði Árni þegar hann var beðinn um að lýsa fyrra marki sínu sem var einkar laglegt. 

„Mér líður ofsalega vel í Blikabúningnum og bara vel að fá að spila. Ég nýt mín vel inni á fótboltavellinum og ekki er það verra þegar maður nær að pota inn einu og einu marki. Ég náði því miður ekki að fullkomna þrennuna, en það kemur bara síðar. Það eru forréttindi að fá að spila í liði með æskuvinum mínum og þetta hefur verið mjög skemmtilegt síðan ég kom. Það er stutt í næsta leik og við verðum að vera snöggur að koma okkur niður á jörðina fyrir þann leik,“ sagði Árni enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka