Leikmenn HK gerðu sig seka um ósmekklegt athæfi á lokahófi félagsins í gærkvöldi þegar einhverjir þeirra pissuðu á fána Breiðabliks, nágranna sinna úr Kópavogi. Vefsíðan 433.is sagði frá atvikinu í morgun.
Í kjölfar fréttarinnar sendi HK frá sér yfirlýsingu um málið þar sem atvikið er harmað, en yfirlýsingin birtist á heimasíðu félagsins. Hana má lesa í heild hér að neðan.
„Í tilefni af frétt sem birtist á vefnum 433.is í dag og varðar ósæmilega meðferð á fána Breiðabliks fyrir utan Fagralund þar sem lokahóf knattspyrnudeildar HK var haldið í gærkvöldi, vill stjórn knattspyrnudeildar koma eftirfarandi á framfæri.
Atvik þetta er bæði fordæmt og harmað af hálfu knattspyrnudeildar HK og félagsins alls. Framkoma af þessum toga er hvorki sæmandi né í samræmi við góðan anda og gott samstarf félaganna tveggja. Ekki er ljóst hverjir stóðu að þessu athæfi en stjórn knattspyrnudeildar HK hefur í hyggju að bregðast við þessu með því að ítreka við félagsmenn sína og iðkendur að siðareglur félagsins skuli hafðar í heiðri öllum stundum og að framkoma af þessum toga muni ekki vera liðin.
Eftir að atvikið varð ljóst var umræddur fáni Breiðabliks þveginn af HK-ingum og dreginn að húni á ný.
Stjórn knattspyrnudeildar HK biður alla Blika innilega afsökunar á þessu atviki.
Uppfært kl. 21.45:
Frétt 433.is af málinu hefur verið breytt á þann veg að ekki er lengur sagt þar að um leikmenn HK hafi verið að ræða.