Hverjir falla og hvaða lið komast í Evrópukeppni?

Gunnar Heiðar Þorvaldsson og félagar hans í ÍBV unnu góðan …
Gunnar Heiðar Þorvaldsson og félagar hans í ÍBV unnu góðan sigur á Val í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Það varð ljóst í dag að Þróttur R. fellur úr efstu deild karla í knattspyrnu en eftir jafntefli þeirra gegn Fylki var það staðfest. Það verður hart barist í síðustu umferðinni, næstkomandi laugardag, um að forðast fallið með Þrótti. Einnig verður barist um tvö sæti sem gefa þátttökurétt í Evrópukeppni á næsta ári.

Góð staða Eyjamanna

Þrjú lið berjast um að forðast fallið; Fylkir, Víkingur Ólafsvík og ÍBV. Eyjamenn unnu góðan sigur á Val, 4:0, í Eyjum í dag. Þeir eru í bestu stöðunni af áðurnefndum þremur liðum, í 9. sæti með 22 stig en þeir sækja Íslandsmeistara FH heim í lokaumferðinni. Þeir eru stigi á undan Ólsurum og þremur stigum á undan Fylki og markatala Eyjamanna er átta mörkum betri en Fylkis. Til að ÍBV falli þurfa því bæði Víkingur Ólafsvík og Fylkir að vinna og Fylkismenn þurfa að vinna sinn leik stórt.

Staða Fylkis er ekki góð eftir 2:2-jafntefli gegn Þrótturum í Árbænum. Árbæingar sækja KR heim í Vesturbæinn í síðustu umferð og verða að vinna þann leik, annars falla þeir niður í næstefstu deild. 

Ólafsvíkingar fagna því eflaust að Fylkir náði ekki að vinna Þrótt í dag. Þeir eru í 10. sæti deildarinnar eftir 1:0-tap gegn KR í Ólafsvík í dag. Ólafsvíkingar sækja Stjörnuna heim í síðustu umferð og verða að vinna til að gulltryggja sæti sitt. Takist Fylki hins vegar ekki að vinna KR þá eru Ólafsvíkingar öruggir um sæti í deild þeirra bestu að ári.

Staða neðstu liða fyrir lokaumferðina:

ÍBV 22 stig -4 mörk
Víkingur Ó. 21 stig -12 mörk
Fylkir 19 stig -12 mörk
Þróttur R. 14 stig -30 mörk

Mikilvægur sigur Stjörnunnar í Grafarvoginum

Tvö lið fylgja Íslandsmeisturum FH og bikarmeisturum Vals í Evrópukeppni á næsta tímabili. Fjögur lið berjast um tvö laus sæti; Stjarnan 36 stig, Breiðablik 35 stig, KR 35 stig og Fjölnir 34 stig. 

Stjarnan sigraði Fjölni, 1:0, í gríðarlega mikilvægum leik í baráttunni um Evrópusæti. Stjörnumenn eru með pálmann í höndunum og með sigri gegn Víkingi Ólafsvík í lokaumferðinni eru þeir búnir að tryggja sér farseðilinn til Evrópu.

Breiðablik er í þriðja sætinu, þrátt fyrir 1:0-tap gegn ÍA uppi á Skaga í dag. Breiðablik tekur á móti Fjölni í síðustu umferðinni og verður að vinna þann leik til að tryggja sér Evrópusætið. Breiðablik er með jafnmörg stig og KR en markatala liðsins er hagstæðari sem munar fjórum mörkum. Sigur Blika á laugardag myndi því líklegast duga, nema KR-ingar valti yfir Fylki í sínum leik.

Von Fjölnismanna er veik fyrir lokaumferðina. Þeir verða að vinna Breiðablik í Kópavoginum og treysta á sama tíma á að Stjarnan eða KR vinni ekki sína leiki. 

KR tekur, eins og áður kom fram, á móti Fylki. Sigur þar tryggir liðinu sæti í Evrópukeppni fari svo að Stjarnan eða Breiðablik vinni ekki sína leiki. Einnig gæti KR farið til Evrópu með því að bursta Fylki.

Evrópubaráttan:

Stjarnan 36 stig +9 mörk
Breiðablik 35 stig +10 mörk
KR 35 stig +6 mörk
Fjölnir 34 stig +14 mörk

Leikirnir í lokaumferðinni, sem fer fram laugardaginn 1. október kl. 14.00:

KR - Fylkir
FH - ÍBV
Stjarnan - Víkingur Ó.
Breiðablik - Fjölnir
Valur - ÍA
Þróttur R. - Víkingur R.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka