Mæta trylltir í næsta leik

Oliver Sigurjónsson í baráttu í leik gegn FH fyrr í …
Oliver Sigurjónsson í baráttu í leik gegn FH fyrr í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta eru virkilega svekkjandi úrslit. Við verðum að líta í eigin barm þegar við skorum ekki fleiri en andstæðingurinn,” sagði Oliver Sigurjónsson, leikmaður Breiðabliks, eftir tap liðsins gegn ÍA í dag.

„Það þýðir ekkert að vera betri og skapa sér færi. Leikurinn snýst um að skora mörk og við þurfum að gera miklu betur í næsta leik ef við ætlum að ná þeim markmiðum sem við settum okkur, að ná 2. sætinu.

Oliver átti aukaspyrnu í fyrri hálfleik sem fór í slána og niður marklínuna og út. Mörgum virtist spyrnan hafa farið inn fyrir línuna.

„Ég veit ekki hvort hann fór inn. Frá mínu sjónarhorni fór boltinn á ská niður, þannig að hann hefur farið bara í skeytin og niður. Við hefðum líka átt að skora úr frákastinu, það var dauðafæri. En ef ég sé á myndbandi að þessi bolti var inni, þá er það bara enn meira svekkjandi,” segir Oliver um atvikið.

Liðið er nú í 3. sæti í deildinni á markatölu, á undan KR. Breiðablik mætir Fjölni í næstu umferð.

„Við mætum trylltir í þann leik. Við erum búnir að gera jafntefli og tapa síðustu tveimur leikjum. Við verðum að mæta dýrvitlausir í þann leik og skora. Við erum að byrja vel í leikjum og stjórna fyrri hálfleikjum en það er ekki nóg. Við þurfum að skora fleiri mörk. Við munum finna lausnir við því í næsta leik. Við ætlum að klára þann leik,” sagði Oliver að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka