Þrjátíu milljóna leikur í Grafarvogi

Fjölnir og Stjarnan eru í harðri baráttu um Evrópusæti og …
Fjölnir og Stjarnan eru í harðri baráttu um Evrópusæti og mætast í dag. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Barátta um Evrópusæti og fallbarátta verður í forgrunni þegar næstsíðasta umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu verður leikin á morgun en allir sex leikirnir hefjast klukkan 14.00.

FH sem Íslandsmeistari og Valur sem bikarmeistari hafa tryggt sér Evrópusæti en Breiðablik, Fjölnir, Stjarnan og KR slást um hin tvö Evrópusætin sem í boði eru. Breiðablik stendur best að vígi af þeim en Blikarnir eru með 35 stig, Fjölnir er með 34, Stjarnan 33 og KR hefur 32 stig.

Það verður mikið undir á Extra-vellinum í Grafarvogi þegar Fjölnir og Stjarnan eigast við og gárungarnir hafa rætt um 30 milljóna króna leikinn. Fjölnismenn eygja möguleika á að vinna sér farseðil í Evrópukeppni í fyrsta sinn í sögu félagsins á meðan Stjörnumenn eru að berjast um að bjarga tímabilinu með því að komast í Evrópukeppnina sem þeir misstu af eftir síðustu leiktíð. Fjölnir leikur á morgun án tveggja lykilmanna en aðstoðarþjálfarinn og reynsluboltinn Ólafur Páll Snorrason og miðvörðurinn sterki Tobias Salquist taka út leikbann og þar er svo sannarlega skarð fyrir skildi.

Breiðablik og KR líka í Evrópubaráttu

Breiðablik sækir Skagamenn heim en eftir tvo tapleiki í röð sigla Akurnesingar lygnan sjó í deildinni. Möguleiki þeirra á Evrópusæti er úr sögunni en Blikarnir þurfa svo sannarlega á sigri að halda í slagnum um Evrópusætið dýrmæta.

KR-ingar eru alls ekki búnir að gefast upp í Evrópubaráttunni en þeir sækja Víkinga heim í Ólafsvík. KR-liðið hefur verið á góðu skriði undir stjórn Willums Þórs Þórssonar en Ólafsvíkingar eru ekki lausir við falldrauginn og þurfa enn einhver stig til viðbótar til að gulltryggja sæti sitt.

Þróttur gæti fellt Fylki

Það gæti dregið til tíðinda í fallbaráttunni. Þróttur má að heita fallinn en getur dregið Fylkismenn með sér niður takist liðinu að leggja Árbæjarliðið að velli í Lautinni.

Fari svo að Fylkir tapi leiknum á sama tíma og ÍBV vinnur Val í Eyjum og Víkingur Ólafsvík nær í stig á móti KR falla Fylkismenn en þeir eru það lið í deildinni sem hefur verið næstlengst í deild þeirra bestu samfleytt á eftir KR. Fylkir hefur spilað í efstu deild samfleytt frá árinu 2000. Ásgeir Börkur Ásgeirsson og Sonni Nattestad verða ekki með Árbæjarliðinu þar sem þeir taka út leikbann. gummih@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert