Flókin staða Evrópumála

Oliver Sigurjónsson úr Breiðabliki og Hilmar Árni Halldórsson úr Stjörnunni …
Oliver Sigurjónsson úr Breiðabliki og Hilmar Árni Halldórsson úr Stjörnunni standa vel að vígi með sínum liðum. mbl.is/Golli

FH-ingar fá í dag glænýjan Íslandsmeistarabikar í hendurnar eftir leik sinn við ÍBV í lokaumferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Þó að úrslitin á toppnum séu ráðin og Þróttur R. fallinn, ríkir enn mikil spenna fyrir lokaumferðina sem leikin verður kl. 14 í dag.

Spennan er mest hvað varðar Evrópusætin mikilvægu. Íslandsmeistarar FH og bikarmeistarar Vals hafa tryggt sér tvö sæti, en Stjarnan, Breiðablik, KR og Fjölnir berjast um sætin tvö sem eftir standa. Stjarnan og Breiðablik eru með örlögin í eigin höndum, en staðan er ansi flókin í þessari baráttu.

*Stjarnan er eina liðið sem er öruggt um Evrópusæti með sigri í sínum leik, gegn Víkingi Ólafsvík í Garðabæ. Vinni Stjörnumenn er 2. sætið þeirra. Geri þeir jafntefli munu þeir missa Breiðablik eða Fjölni upp fyrir sig (aldrei bæði), sem og KR ef KR vinnur Fylki í Vesturbæ. Ef Stjarnan tapar missir liðið Breiðablik eða Fjölni upp fyrir sig, en gæti haldið Evrópusæti ef KR vinnur ekki Fylki.

*Breiðablik er í góðum málum ef liðið vinnur Fjölni í Kópavogi. Ekki er þó víst að það dugi. Ef Blikar vinna til dæmis með einu marki, en KR vinnur Fylki með fimm marka mun og Stjarnan vinnur sinn leik, þá enda Blikar í 4. sæti og missa af Evrópukeppni. Ef Breiðablik tapar er ljóst að liðið nær ekki Evrópusæti. Jafntefli dugar ef Stjarnan tapar sínum leik, eða ef KR vinnur ekki sinn leik.

*KR þarf að vinna Fylki og treysta á að annað hvort Breiðablik eða Stjarnan vinni ekki sinn leik, eða vinna Fylki með fjórum mörkum meiri mun en Breiðablik vinnur sinn leik. Jafntefli dygði KR með mjög hagstæðum úrslitum í öðrum leikjum (Breiðablik og Fjölnir geri jafntefli og Stjarnan tapi með fjögurra marka mun).

*Fjölnir verður að vinna Breiðablik og treysta á að annað hvort Stjarnan eða KR vinni ekki sinn leik. Þar hjálpar það Fjölnismönnum að vera með langbestu markatöluna.

Fellur Fylkir eða Víkingur Ó.?

Fylkir og Víkingur Ó. berjast um að forðast fall. ÍBV virðist sloppið, þremur stigum fyrir ofan Fylki og með 8 mörkum betri markatölu en bæði Víkingur og Fylkir.

*Víkingur Ó. getur aðeins verið öruggur um að halda sæti sínu með því að vinna Stjörnuna. Jafntefli breytir engu fyrir Víkinga (nema að Fylkir vinni og ÍBV tapi með átta mörkum). Þeir halda sér uppi með jafntefli eða tapi ef Fylkir nær ekki að vinna sinn leik.

*Fylkir kveður úrvalsdeildina eftir 17 leiktíðir í deildinni ef liðið nær ekki að vinna KR. Sigur dugar liðinu aðeins ef Víkingur Ó. vinnur ekki sinn leik, eða ef ÍBV tapar með miklum mun gegn FH (átta marka sveifla þarf að verða).

Berjast um gullskóinn

Í leik Vals og ÍA á Hlíðarenda mætast mennirnir sem berjast um gullskóinn; Garðar Gunnlaugsson (14 mörk) og Kristinn Freyr Sigurðsson (13 mörk). Martin Lund Pedersen úr Fjölni er þriðji markahæstur með 9 mörk. Loks mætast Þróttur R. og Víkingur R. í leik sem hefur litla sem enga þýðingu.

Lokaumferðin
» Allir leikir lokaumferðarinnar hefjast kl. 14: FH - ÍBV, Stjarnan - Víkingur Ó., Breiðablik - Fjölnir, KR - Fylkir, Valur - ÍA, Þróttur R. - Víkingur R.
» Staðan: FH 42, Stjarnan 36 (+9 í markatölu), Breiðablik 35 (+10), KR 35 (+6), Fjölnir 34 (+14), Valur 32, ÍA 31, Víkingur R. 29, ÍBV 22 (-4 í markatölu), Víkingur Ó. 21 (-12), Fylkir 19 (-12), Þróttur R. 14.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert