Knattspyrnumaðurinn Hólmbert Aron Friðjónsson er laus allra mála frá KR-ingum og verður áfram í herbúðum Stjörnunnar.
Hólmbert gekk í raðir Stjörnunnar frá KR í byrjun ágúst. Um lánssamning var að ræða en ákvæði voru í samningi félaganna að Stjarnan hefði forkaupsrétt á leikmanninum.
„Stjörnumenn ákváðu að nýta sér forkaupsréttinn á Hólmberti. Þeir áttu að tilkynna okkur það fyrir 15. október og þeir gerðu þann 14. október svo hann er kominn í Stjörnuna,“ sagði Kristinn Kærnested formaður knattspyrnudeildar KR í samtali við mbl.is í dag.
Hólmbert lék 10 leiki með KR-ingum í Pepsi-deildinni á nýafstaðinni leiktíð en náði ekki að skora mark í þeim en hann skoraði 2 mörk í 9 leikjum með Stjörnunni sem komu bæði í leiknum gegn Íslandsmeisturum FH í Kaplakrika.