Ísland og Malta mætast í fimmtánda skipti í A-landsleik karla í knattspyrnu í kvöld þegar þjóðirnar eigast við í vináttuleik á Ta'Qali leikvanginum á Möltu. Átta ár eru frá því liðin mættust síðast.
Ísland hefur sigrað tíu sinnum í fjórtán viðureignum til þessa en Maltverjar hafa unnið þrisvar og einu sinni hafa liðin skilið jöfn.
1. Malta vann Ísland 2:1 í undankeppni EM á Möltu í júní 1982. Marteinn Geirsson skoraði mark Íslands úr vítaspyrnu.
2. Ísland vann Möltu 1:0 í seinni leiknum í þeirri keppni á Laugardalsvelli í júní 1983. Atli Eðvaldsson skoraði sigurmarkið.
3. Ísland sigraði 4:1 í vináttuleik á Möltu í maí 1991. Rúnar Kristinsson skoraði tvö mörk, Sigurður Grétarsson og Andri Marteinsson eitt hvor.
4. Malta sigraði 1:0 í vináttuleik á Möltu í febrúar 1992.
5. Ísland sigraði 4:1 í vináttuleik á Möltu í febrúar 1996. Ólafur Þórðarson, Bjarki Gunnlaugsson, Arnar Grétarsson og Arnór Guðjohnsen skoruðu mörkin.
6. Ísland sigraði 2:1 í vináttuleik á Laugardalsvelli í ágúst 1996. Ólafur Adolfsson og Ríkharður Daðason skoruðu mörkin.
7. Ísland sigraði 2:1 í vináttuleik á Möltu í apríl 1999. Þórður Guðjónsson og Ríkharður Daðason skoruðu mörkin.
8. Ísland sigraði 5:0 í vináttuleik á Laugardalsvelli í júlí 2000. Helgi Sigurðsson skoraði þrennu en Eyjólfur Sverrisson og Heiðar Helguson eitt mark hvor.
9. Ísland sigraði 4:1 í undankeppni HM á Möltu í apríl 2001. Tryggvi Guðmundsson, Helgi Sigurðsson, Eiður Smári Guðjohnsen og Þórður Guðjónsson skoruðu mörkin.
10. Ísland sigraði 3:0 í undankeppni HM á Laugardalsvelli í júní 2001. Tryggvi Guðmundsson, Ríkharður Daðason og Eiður Smári Guðjohnsen skoruðu mörkin.
11. Eina jafnteflið, 0:0, í undankeppni HM á Möltu í október 2004.
12. Ísland sigraði 4:1 í undankeppni HM á Laugardalsvelli í júní 2005. Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Eiður Smári Guðjohnsen, Tryggvi Guðmundsson og Veigar Páll Gunnarsson skoruðu mörkin.
13. Malta sigraði 1:0 í vináttuleik á Möltu í febrúar 2008.
14. Ísland sigraði 1:0 í vináttuleik á Möltu í nóvember 2008. Heiðar Helguson skoraði markið.