„Þetta er bara komið gott“

Geir Þorsteinsson formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson formaður KSÍ. mbl.is/RAX

„Ég ákvað að nú væri gott að skera á þennan streng. Þetta eru orðin hátt í 25 ár svo þetta er komið gott,“ sagði Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, í samtali við mbl.is en hann tilkynnti fyrir stundu að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri sem formaður.

Sjá frétt mbl.is: Geir dregur sig í hlé hjá KSÍ

Geir sagði í síðasta mánuði að hann ætlaði að bjóða sig fram til endurkjörs, en hvað hefur breyst síðan þá?

„Eins og þú veist þá hefur verið mikil umræða í knattspyrnuheiminum um að takmarka setu manna í æðstu stöðum. Um þetta hef ég setið marga fundi á alþjóðavettvangi. Ég hafði hugsað mér að vera tvö ár í viðbót en svo ýtti það við mér að það eru menn sem vilja komast að. Þá fór ég að hugsa um góða stjórnunarhætti hvað varðar takmarkaða setu og allan tímann sem ég hef gefið í þetta. Ég fór að hugsa um hvað væri best fyrir mig, sem er kannski svolítið eigingjarnt, en mér fannst tímasetningin bara góð,“ sagði Geir.

Guðni Bergsson hefur þegar lýst yfir framboði sínu og þá liggur Björn Einarsson undir feldi.

Enn opinn fyrir stjórn FIFA

Geir sækist eftir kjöri í stjórn Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, á þingi UEFA í Helsinki í apríl, en hann hefur sagt að forsenda fyrir því að hann taki sæti í stjórninni sé að hann verði formaður. Hann segir möguleikann þó enn vera til staðar.

„Ég er opinn fyrir því að halda því áfram ef það er mögulegt og næst samstaða um það. Það verður bara að sjá til hvað FIFA og UEFA segja um það. Ef það verður á borðinu þá er ég tilbúinn að fylgja því eftir,“ sagði Geir.

Geir tók við sem fram­kvæmda­stjóri KSÍ árið 1997 og hef­ur verið formaður síðan 2007. Áður hafði hann starfað hjá sambandinu og því er um erfiða ákvörðun að ræða að ákveða að stíga til hliðar. Hvað tekur við er ekki ljóst á þessari stundu.

„Ég vil fylgja þeim breytingum sem eru að verða að menn sitji ekki of lengi við stjórn. Ég og KSÍ erum eitt, finnst mér stundum. Það hefur verið í forgangi hjá mér svo um er að ræða mikla breytingu, en þetta er bara komið gott,“ sagði Geir Þorsteinsson við mbl.is nú fyrir stundu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert