„Stefnan er sett alla leið“

Alfons Sampsted í leik með Blikum í sumar.
Alfons Sampsted í leik með Blikum í sumar. mbl.is/Golli

„Þetta er mál sem er búið að vera í vinnslu í tvo, þrjá mánuði,“ sagði bakvörðurinn Alfons Sampsted við mbl.is, en hann gekk í dag í raðir sænska úrvalsdeildarfélagsins Norrköping og skrifaði þar undir fjögurra ára samning.

Sjá frétt mbl.is: Blikar selja Alfons til Svíþjóðar

„Þetta fór rólega af stað en núna síðustu vikur hafa hlutirnir farið að gerast og við náðum að ganga frá þessu í dag,“ sagði hinn 18 ára gamli Alfons, sem hafði þegar samið við félagið en beðið var eftir að gengið væri frá lausum endum.

„Ég kem ekkert inn í málið fyrr en öll óvissa er komin úr þessu, en ég tók bara lokaákvörðunina að skrifa undir. Foreldrar mínir eru alveg í þessu, þau vissu hvað ég vildi og unnu eftir því,“ sagði Alfons, sem reiknar með því að foreldrarnir verði honum innan handar í Svíþjóð fyrst um sinn.

„Ætli þau fylgi ekki með mér í byrjun og svo verð ég þarna einn þegar ég er búinn að koma mér fyrir,“ sagði Alfons.

Alfons Sampsted í leik Víkings og Breiðabliks í sumar.
Alfons Sampsted í leik Víkings og Breiðabliks í sumar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefna hjá Breiðabliki að gera unga leikmenn góða

Aðspurður segir Alfons að um einstakt tækifæri sé að ræða fyrir sig, og að hann telji sænsku úrvalsdeildina vera góðan stökkpall fyrir framtíðina þar sem hann stefnir hátt.

„Þetta er frábært tækifæri fótboltalega séð og gaman að fá möguleikann á því að stíga upp í stærri deild og máta sig við aðra leikmenn þar. Þetta verður bara skemmtilegt held ég. Sænska deildin er frábær og ef maður stendur sig í henni þá er aldrei að vita nema maður komist eitthvað lengra. Stefnan er sett alla leið, að sjálfsögðu,“ sagði Alfons.

Hann er enn einn Blikinn sem heldur í atvinnumennsku, en unglingastarf Breiðabliks hefur alið af sér fjölda leikmanna sem hafa staðið sig vel á erlendri grundu.

„Þetta er alveg frábært. Allir þjálfarar, allt starfsfólk og utanumhald er bara frábært og það er stefna þarna að því að gera unga leikmenn góða. Þeim tekst það bara frábærlega,“ sagði Alfons Sampsted við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka