„Það má segja að ég sé glaðari eftir því sem lengra líður frá leiknum,“ sagði Heimir Hallgrímsson, þjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu, við mbl.is eftir tapleikinn gegn Mexíkó í Las Vegas í Bandaríkjunum í nótt.
Ungt og reynslulítið lið Íslands tapaði 1:0 fyrir sterku og leikreyndu liði Mexíkó.
„Þegar þú þarft að vera að verjast svona mikið eins og við gerðum meira og minna allan leikinn á móti reyndu og góðu liði þá tel ég það góð úrslit að fá aðeins á sig eitt mark og það úr föstu leikatriði. Við vorum mjög ánægðir með það að leikmenn meðtóku það sem þeir áttu að gera.
Það var margt sem kom á óvart hjá okkar leikmönnum. Það var allt til að gera þetta erfiðan leik fyrir okkur. Tímamismunurinn, aðeins tvær æfingar til undirbúngsins fyrir leikinn, margir nýliðar sem hafa aldrei verið með okkur áður og ógnarsterkir andstæðingar á útivelli í mikilli stemningu,“ sagði Heimir þegar mbl.is spjallaði við hann nú í morgunsárið en þá var að hann að koma ásamt leikmönnum á hótel landsliðsins í Las Vegas.
„Mexíkóarnir voru mikið með boltann og reyndu mikið af skotum fyrir utan en við spiluðum varnarleikinn gríðarlega vel. Við gátum lítið sótt þar sem við höfðum boltann lítið í leiknum og það var ekki við því að búast að sóknarleikur okkar yrði mjög burðugur þegar við bárum saman liðin fyrir leikinn,“ sagði Heimir.
Sex leikmenn léku sinn fyrsta A-landsleik í nótt. Frederik Schram, Kristinn Freyr Sigurðsson og Kristján Flóki Finnbogason voru í byrjunarliðinu og þeir Tryggvi Hrafn Haraldsson, Árni Vilhjálmsson og Adam Örn Arnarson komu inn á sem varamenn.
„Við erum búnir að spila þrjá leiki í janúar og febrúar á móti mjög sterkum þjóðum, Króatíu, Síle og Mexíkó, og tólf nýliðar hafa fengið að spreyta sig í þessum leikjum og margir að spila annan og þriðja leik sinn í þessum verkefnum. Margir af þessum leikmönnum koma úr Pepsi-deildinni. Markatalan úr þessum leikjum er 2:2 sem er virkilega góð frammistaða og veit á gott.
Ég held að þetta sé mjög gott innlegg inn í framtíðina og nauðsynlegt að geta gefið mönnum sína fyrstu landsleiki. Vonandi nýta þeir sér þetta tækifæri og liðin til að efla þessa stráka. Ég get trúað að það skemmi ekki fyrir hjá þessum strákum að vera komnir með einn, tvo og þrjá landsleiki í landsliði sem er númer 20 í heiminum upp á þann möguleika að geta farið eitthvað annað og stærra. Það vonandi hjálpar þeim og félögunum til þess að taka næsta skrefið á ferlinum,“ sagði Heimir.
„Við erum mjög ánægðir með mörg svör við þeim spurningum sem við lögðum fram í þessum leik og það voru leikmenn sem við vorum mjög ánægðir með í þessum leik sem og í leikjunum í janúar sem koma til með að banka á dyrnar í framhaldinu og hafa sýnt að þeir hafa meðtekið vel það sem við lögðum upp með. Ég hef ekki vanið mig á að telja upp einhver nöfn en það kemur þá bara í ljós í næstu verkefnum,“ sagði Heimir Hallgrímsson.