Landsliðskonan í knattspyrnu, Hallbera Guðný Gísladóttir, lenti í þeirri leiðinlegu reynslu í gær að brotist var inn á heimili hennar í Stokkhólmi þar sem hún leikur með Djurgården í efstu deild.
„Ég er búin að ná mér niður. Lögreglan var að fara. Hún var að rannsaka málið,“ sagði Hallbera nokkuð létt í lund en þó meðvituð um alvöru málsins en lögreglumennirnir voru sjálfir hissa á því hvernig þjófarnir hefðu komist inn í íbúðina, sem er á annarri hæð.
Hallbera býr á afar góðum stað í Stokkhólmi, í einu elsta borgarinnar, Gärdet, sem almennt er talið afar öruggt.
„Þetta er alls ekki algengt hérna. Þetta er mjög rólegt hverfi, fjölskylduhverfi. Ég átti alls ekki von á þessu og var ekki búin að spá í þetta. Líka af því að ég er á annarri hæð. En ég er auðvitað frekar miðsvæðis og auðvitað alls konar lið sem er hérna,“ sagði Hallbera.
„Það var búið að fara í gegnum allt dótið mitt og henda því á gólfið. Hurðin var opin og frekar illa farin. Það var meira að segja búið að fara í gegnum baðherbergisskápinn og alls konar svona. Þetta var frekar óþægilegt af því að maður sá að það var búið að fara í gegnum allt. Það var allt út um allt. Þeir ganga ekkert voðalega vel um sig þessir þjófar,“ sagði Hallbera og hló.
Hallbera stundar fjarnám í viðskiptafræði í Háskólanum á Akureyri og segir mesta tjónið líklega hafa verið tölvan.
„Ég er að klára viðskiptafræðina. Það var eiginlega mesta tjónið að missa tölvuna með öllum skólagögnunum,“ sagði Hallbera.
Félagið bauð Hallberu að gista annars staðar eftir atvikið í gærkvöldi sem hún afþakkaði þó enda ætlar hún að halda áfram að búa á sama stað.
„Þeir fara ekkert að koma aftur? Er það nokkuð?“ sagði Hallbera hlæjandi. „Ég verð hérna áfram. Mér líður vel hérna. Þetta er ótrúega góður staður, stutt að fara niður í bæ og vinalegt fólk í húsinu,“ sagði Hallbera en félagið á íbúðina og einhverjir leikmenn úr karlaliðinu búa einnig á sama svæði.
Tímabilið í Svíþjóð hefst um miðjan apríl og Hallberu líst vel á það en segir þó áherslurnar aðeins öðruvísi á æfingum miðað við Ísland.
„Mér líst mjög vel á þetta. Þetta er ekki alveg jafn frjálst og heima. Það er mikil taktík sem er smá breyting. En mér líst mjög vel á þetta og held að við séum með fínan hóp,“ sagði Hallbera.