Jafntefli við Noreg í fyrsta leik

Byrjunarlið Íslands gegn Noregi.
Byrjunarlið Íslands gegn Noregi. Ljósmynd/KSÍ

Ísland gerði jafntefli við Noreg, 1:1, í fyrsta leik sínum í B-riðli Algarve-bikar kvenna í knattspyrnu sem fram fer í Portúgal. Bæði mörkin voru skoruð á fyrstu átta mínútum leiksins.

Það var því skiljanlega heldur betur fjör í byrjun leiks. Strax á 4. mínútu komst norska liðið yfir, þegar boltinn var lagður fyrir knattspyrnukonu ársins í Evrópu, Ada Hederberg, sem skoraði með hnitmiðuðu skoti við vítateigslínuna. Martraðarbyrjun Íslands.

En íslenska liðið lét þetta ekki á sig fá og aðeins fjórum mínútum síðar var staðan orðin jöfn. Elín Metta Jensen gerði þá vel á hægri kantinum og kom boltanum fyrir markið þar sem Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir gerði vel og kom boltanum í netið. Staðan 1:1 og aðeins 8 mínútur liðnar.

Leikurinn róaðist nokkuð eftir þetta, en eftir rúmlega 20 mínútna leik meiddist Sandra María Jessen að því er virtist alvarlega. Hún var flutt sárþjáð af velli og miðað við hvernig atvikið leit út á myndskeiði gæti verið um alvarleg meiðsli að ræða.

Staðan var 1:1 í hálfleik, en norska liðið var meira með boltann eftir hlé á meðan það íslenska lá frekar til baka og beitti skyndisóknum. Lítið var um færi fyrr en undir lok leiksins, þegar Noregur sótti stíft.

Íslenska vörnin með Glódísi Perlu Viggósdóttur fremsta í flokki hélt hins vegar velli og lokatölur leiksins jafntefli, 1:1.

Ísland mætir Japan í öðrum leik sínum klukkan 14.45 á föstudag, en Japan tapaði fyrir Spáni nokkuð óvænt í dag 2:1.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Fanndís Friðriksdóttir reynir skot að marki í leik gegn Noregi …
Fanndís Friðriksdóttir reynir skot að marki í leik gegn Noregi í Algarve-bikarnum. Ljósmynd/KSÍ
Noregur 1:1 Ísland opna loka
90. mín. Leik lokið Jafntefli í fyrsta leik.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert