„Ég er að reyna mitt besta til að vera klár í landsleikinn, en get ekki svarað því núna hvort svo verður. Mér finnst samt líklegt að ég verði orðinn klár, og það var alltaf markmiðið sem ég setti mér,“ sagði Kári Árnason, landsliðsmiðvörður í knattspyrnu, við Morgunblaðið í gær.
Kári hefur verið frá keppni í rúman mánuð vegna meiðsla en sprunga myndaðist í rifbeini við högg sem hann fékk í leik með liði sínu Omonia Nicosia á Kýpur. Landsleikurinn sem hann nefnir er leikur Íslands og Kósóvó í Albaníu föstudaginn 24. mars, í undankeppni HM, sem gæti orðið fyrsti mótsleikurinn sem Kári missir af síðan í mars 2013.
Í fyrstu leit út fyrir að meiðslin væru ekki svo alvarleg, en Kári hefur nú misst af sex leikjum. Í besta falli nær hann því að spila einn leik, á laugardag, fyrir landsleikjahléið:
„Það hægðist aðeins á bataferlinu og ég hef ekki verið að spila, til þess að taka ekki neina sénsa. Fyrst um sinn gerði ég lítið, til að hlífa mér algjörlega, en svo hef ég hægt og bítandi farið að æfa meira og meira. Núna er ég búinn að æfa með liðinu síðustu vikuna en það hefur verið of áhættusamt að spila leik hingað til, ef ske kynni að maður fengi eitthvert högg. Þetta er í ákveðnu ferli og ég reyni að vera klár eins fljótt og mögulegt er,“ sagði Kári.
„Það er möguleiki á að ég spili næsta leik á laugardag en við metum stöðuna dag frá degi og ég fer í myndatöku reglulega til að sjá hvernig beinið grær,“ sagði Kári sem kveðst í góðu formi enda hafi hann getað hlaupið og æft að mestu leyti þó að hann hafi ekki spilað. sindris@mbl.is