Fjórði bróðirinn sem skorar í landsleik

Gylfi Þór Sigurðsson, Björn Bergmann Sigurðarson, Emil Hallfreðsson og Viðar …
Gylfi Þór Sigurðsson, Björn Bergmann Sigurðarson, Emil Hallfreðsson og Viðar Örn Kjartansson fagna marki Björns í kvöld. AFP

Björn Bergmann Sigurðarson kom Íslandi yfir gegn Kósóvó í undankeppni heimsmeistaramótsins í knattspyrnu sem nú er í gangi. Þetta var hans fyrsta landsliðsmark og hann fetaði þar í fótspor þriggja bræðra sinna.

Hálfbræður Björns eru þeir Bjarni Guðjónsson, Jóhannes Karl Guðjónsson og Þórður Guðjónsson sem allir voru landsliðs- og atvinnumenn. Þeir skoruðu jafnframt allir í landsleik og eru þeir því orðnir fjórir bræðurnir með landsliðsmörk á ferlinum, sem verður að teljast einstakt.

Bjarni skoraði eitt mark á sínum landsliðsferli í 23 leikjum, gegn Liechtenstein árið 1997. Það gerði Jóhannes Karl líka í sínum 34 landsleikjum, en markið skoraði hann gegn Noregi árið 2002. Þórður skoraði hins vegar 13 landsliðsmörk í 58 leikjum sínum fyrir Ísland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert