Hörður Björgvin Magnússon tryggði Íslendingum langþráðan sigur gegn Írum þegar Íslendingar fögnuðu 1:0 sigri í vináttuleik þjóðanna á Aviva-vellinum í Dublin í kvöld. Þar með töpuðu Írar sínum fyrsta heimaleik í þrjú ár.
Hörður Björgvin, sem er spyrnumaður góður, opnaði markareikning sinn með íslenska liðinu þegar hann skoraði með glæsilegu skoti úr aukaspyrnu rétt utan vítateigs á 21. mínútu eftir að brotið hafði verið á Kjartani Henry Finnbogasyni. Þetta reyndist sigurmark leiksins og Íslendingar fögnuðu fyrsta sigri gegn Írum frá upphafi en leikurinn í kvöld var 11. landsleikur þjóðanna.
Það var lítið um færi í leiknum og Írar náðu aldrei að ógna marki íslenska liðsins sem lék af skynsemi og varnarleikur liðsins var sterkur. Íslendingar voru betri aðilinn í fyrri hálfleik og Aron Sigurðarson átti nokkrar góðar rispur. Írar náðu ekki að finna neinar glufur á vörn Íslendinga og þó svo að þeir hafi verið meira með boltann í síðari hálfleik og fengið sjö hornspyrnur skapaðist aldrei hætta upp við íslenska markið.
Liðsheildin var góð hjá íslenska liðinu. Ögmundur var öryggið uppmálað í markinu, miðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason var firnasterkur í hjarta varnarinnar og var heilt yfir besti maður íslenska liðsins. Varnarlínan var traust með bakverðina Hörð Björgvin og Birki Má Sævarsson og Ragnar Sigurðsson í miðvarðastöðunni með Sverri.
Fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson í sínum 70. landsleik og Ólafur Ingi Skúlason voru duglegir á miðsvæðinu og Aron Sigurðarson lék mjög vel í þann rúma klukkutíma sem hann var inni á, var mjög áræðinn og óttalaus og fór vel með boltann. Kjartan Henry Finnbogason og Jón Daði Böðvarsson, sem voru saman í fremstu víglínu, náðu vel saman og skiluðu góðri vinnu og Jón Daði var ódrepandi í 90 mínútur með krafti sínum og endalausum hlaupum.
Góður sigur Íslendinga staðreynd og gott veganesti í stórleikinn gegn Króötum í undankeppni HM sem fram fer á Laugardalsvellinum 11. júní.