Skellur gegn Hollendingum

Byrjunarlið Íslands í dag.
Byrjunarlið Íslands í dag. Ljósmynd/ Facebook KSÍ

Holland vann mjög sannfærandi sigur, 4:0, á Íslandi í vináttulandsleik þjóðanna í knattspyrnu kvenna í Doetinchem í Hollandi í dag.

Þetta er aðeins annar sigur Hollendinga gegn Íslendingum í A-landsliðum kvenna í níu viðureignum þjóðanna.

Hollenska liðið var mun betri aðilinn mest allan tímann og íslenska liðið slapp nokkrum sinnum fyrir horn áður en Vivianne Miedema skoraði fyrsta markið á 22. mínútu. Staðan var 1:0 í hálfleik.

Miedema skoraði annað markið á 51. mínútu og Lieke Martens bætti við marki á 67. mínútu. Íslenska liðið náði þokkalegum köflum eftir það og Sigríður Lára Garðarsdóttir var næst því að minnka muninn á 88. mínútu þegar hún átti skalla í samskeytin á marki Hollendinga.

Fjórða markið kom hinsvegar í uppbótartímanum þegar Lieke Martens sendi fyrir mark Íslands og boltinn fór af Glódísi Perlu Viggósdóttur og í netið, 4:0.

Þetta var seinni leikurinn af tveimur í keppnisferð íslenska liðsins sem vann Slóvakíu, 2:0, á dögunum.

Leikurinn fór fram á Vijverberg leikvanginum í Doetinchem en þar leikur Ísland gegn Sviss í lokakeppni Evrópumótsins í Hollandi í sumar.

Holland 4:0 Ísland opna loka
90. mín. Holland skorar 4:0 - sjálfsmark Glódísar Perlu Viggósdóttur. Lieke Martens sendi fyrir mark Íslands frá vinstri og boltinn fór af Glódísi í netið.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert