„Enginn heimsendir“

Þorsteinn Halldórsson.
Þorsteinn Halldórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennaliðs Breiðabliks, var hinn rólegasti þrátt fyrir 1:0-tap síns liðs gegn Þór/KA í kvöld. Leikur liðanna var jafn og skemmtilegur og litu alls 32 marktilraunir ljós. Eina markið skoraði Þór/KA og Blikar eru því með markatöluna 1:1 eftir tvo fyrstu leikina.

Er þetta eitthvað til að hafa áhyggjur af með alla þessa frábæru sóknarmenn?

„Nei, þetta er bara einn leikur og við fengum alveg færi. Þór/KA gerði okkur bara erfitt fyrir með því að þétta raðirnar hjá sér og loka vel á okkur. Þetta var bara jafn leikur og ef eitthvað þá vorum við betri úti á vellinum. Þær hins vegar skoruðu þetta mark og það er það sem skilur á milli,“ sagði Þorsteinn og hélt áfram.

„Ég veit að það býr miklu meira í liðinu og við erum að spila nokkuð vel. Það fór aðeins með okkur í þessum leik að við fórum að flýta okkur of mikið, vorum ekki nógu þolinmóð. Þetta er enginn heimsendir. Tap á Akureyri. Lið eiga eftir að koma hingað og eiga erfiða leiki. Svo á Þór/KA eftir að fara á útivellina og það er ekki þeirra sterkasta hlið. Þetta mót verður jafnt og liðin að taka stig hvert af öðru.“

Voruð þið með eitthvað plan til að stoppa Stephany Mayor hjá Þór/KA?

„Nei, ekkert sérstaklega. Hún er frábær leikmaður og skapaði nokkur færi fyrir Þór/KA. Hún var ekki vandamálið í leiknum. Vandamálið sneri frekar að okkur og okkar leik eins og ég nefndi áðan. Við svona vönduðum okkur ekki og flýttum okkur of mikið,“ sagði Steini Halldórs að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka