Annars bíður okkar bara vesen

Damir Muminovic, til vinstri, horfir á eftir Fjölnismanninum Birni Snæ …
Damir Muminovic, til vinstri, horfir á eftir Fjölnismanninum Birni Snæ Ingasyni í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Damir Muminovic, miðvörður Breiðabliks, er að vonum ekki sáttur við byrjun Kópavogsliðsins í Pepsi-deild karla en Blikar eru án stiga eftir ósigur gegn Fjölni í Grafarvogi í kvöld, 1:0. Þeir töpuðu fyrir nýliðum KA á heimavelli í fyrstu umferðinni.

„Það er  góð spurning!“ svaraði Damir þegar mbl.is spurði hann hvað vantaði upp á í leik liðsins. „Við erum með góða leikmenn en tekst einhvern veginn ekki að skapa okkur neitt. Við fengum varla meira en eitt hálffæri í þessum leik. Við fórum að spila með löngum sendingum sem gerir ekki neitt fyrir okkur og við þurfum að skoða það,“ sagði Damir.

Vantar þá sjálfstraust í liðið til þess að halda boltanum betur?

„Nei, það held ég ekki. Okkur vantar bara að vera aðeins kokhraustari og hafa meiri trú á sjálfum okkur. Við erum með fína sóknarmenn í liðinu en ég vona bara innilega að hver og einn fari að rífa sig í gang og einbeita sér að því að gera betur. Ef við höldum áfram á þessari braut bíður okkar ekkert nema vesen. Við eigum klárlega mikið inni og verðum bara að gleyma þessum tveimur leikjum sem fyrst og halda okkar striki.“

Það hafa verið breytingar á vörninni í þessum fyrstu leikjum, sinn hvor miðvörðurinn við hliðina á þér. Gísli í síðasta leik og núna Viktor Örn. Hefur það verið vandamál?

„Það er allt í lagi. Auðvitað er óþægilegt fyrir alla þegar breytingar eru gerðar en við Viktor þekkjumst vel, höfum spilað oft saman síðustu þrjú ár og þekkjum hvor annan vel. Nú verðum við bara að ná okkur á strik þegar við mætum Stjörnunni í næsta leik, það dugar ekkert annað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka