Miðvörðurinn ungi Hans Viktor Guðmundsson tryggði Fjölni mikilvægan sigur á Breiðabliki í kvöld, 1:0, í Pepsi-deild karla í knattspyrnu og hann er að vonum ánægður með stöðu liðsins eftir fyrstu tvo leikina en Fjölnir er með 4 stig og markatöluna 1:0.
„Jú, ég skoraði markið og vonandi er það skráð þannig,“ sagði Hans Viktor hlæjandi þegar mbl.is ræddi við hann eftir leikinn en fyrst var talið að Igor Jugovic hefði skoraði með hörkuskoti utan vítateigs.
„Igor skaut og ég var aðeins til hliðar við vítapunktinn, fékk boltann í bakið og stýrði honum þannig í netið,“ sagði Hans Viktor sem er tvítugur og á öðru ári sínu sem fastamaður í miðri vörn Fjölnismanna. Hann gerði tvö mörk í deildinni í fyrra.
„Þetta er mjög gott eftir fyrstu tvo leikina en það eina sem vantaði var að skora mörk í Eyjum, við hefðum átt að skora helling af þeim þar. Það virðist vera vandamál hjá okkur sem stendur að skora mörk en ég hef engar áhyggjur af því. Við erum með mjög flotta leikmenn og eigum eftir að gera helling af mörkum í sumar. Þetta kemur bara, við þurfum að klára færin og varnarleikurinn er flottur hjá okkur,“ sagði Hans Viktor.
Vörn Fjölnis er nokkuð breytt en Hans og vinstri bakvörðurinn Mario Tadejevic eru eftir en króatíski miðvörðurinn Ivica Dzolan kom fyrir tímabilið og Hollendingurinn Mees Siers, sem lék með ÍBV, spilaði sinn fyrsta leik í kvöld í stöðu hægri bakvarðar.
„Það hefur bara gengið vel að móta vörnina. Ivica byrjaði rólega en er búinn að vinna sig inn í þetta og er frábær og Mees var bara búinn að vera á einni æfingu með okkur en hann kom vel inn í þennan leik þrátt fyrir það. Hann virkaði vel.“
Hans sagði að markmið Fjölnis fyrir sumarið hefði verið að ná í Evrópusætið sem félagið missti svo naumlega af síðasta haust. „Það er eina ákveðna markmiðið en svo er það þetta einfalda, standa sig vel í leikjum, halda hreinu og skora mörk. Flóknara er það ekki,“ sagði Hans Viktor Guðmundsson.