„Auðvitað er ég drullusvekktur“

Arnar Grétarsson.
Arnar Grétarsson. mbl.is/Eva Björk

„Þú getur ímyndað þér svipinn á mér þegar ég heyrði þetta,“ sagði Arnar Grétarsson við mbl.is nú rétt í þessu, en hann var í dag rekinn úr starfi þjálfara karlaliðs Breiðabliks í knattspyrnu.

„Hvað á ég að segja? Ég er hissa fyrir það fyrsta og þykir þetta mjög miður. Tveir leikir búnir og svo gerist þetta. Þetta kemur mjög á óvart og auðvitað er maður vonsvikinn,“ sagði Arnar, en Blikar töpuðu heima fyrir KA í fyrstu umferð og úti fyrir Fjölni í gær.

„Hefðum við unnið leikinn í gær hefði allt verið frábært, en við unnum ekki og þá er allt bara skelfilegt,“ sagði Arnar, sem var kallaður á fund stjórnarinnar í dag.

„Já, en ég hélt að það væri tengt öðru. Ég átti ekki von á þessu og ég veit ekki hver á von á því að vera rekinn eftir tvær umferðir. Það er eitthvað sem ég skil ekki,“ sagði Arnar, en er hann ósáttur við vinnubrögð stjórnarinnar?

„Auðvitað eru menn alltaf ósáttir að vera reknir, hvað þá eftir tvær umferðir, en þetta er bara þeirra ákvörðun og maður verður að virða hana. Auðvitað er ég drullusvekktur því ég veit að það býr hellingur í þessu liði. Menn þurfa bara stundum að fá tíma og menn átta sig oft ekki á því í fótboltanum. Ég óska náttúrulega Breiðabliki alls hins besta og vona að strákarnir standi sig og geri sitt besta,“ sagði Arnar Grétarsson við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert