Barist við gamlan draug

Baldur Sigurðsson og Arnþór Ari Atlason mætast með liðum Stjörnunnar …
Baldur Sigurðsson og Arnþór Ari Atlason mætast með liðum Stjörnunnar og Breiðabliks í kvöld. mbl.is/Styrmir Kari

Undanfarin ár hefur ríkt talsverð spenna í kringum leiki nágrannaliðanna Breiðabliks og Stjörnunnar í karlafótboltanum. Bæði félögin hafa gert sig gildandi í baráttunni um stóru titlana, bæði orðið Íslandsmeistarar í fyrsta sinn á þessum áratug, og oftar en ekki hafa viðureignir þeirra vegið þungt, t.d. í lokaumferðum úrvalsdeildarinnar.

Þegar þau mætast í kvöld kl. 20 á Kópavogsvelli verður líka spenna í lofti þó staða annars þeirra sé aðeins öðruvísi en vanalega. Breiðablik hefur tapað tveimur fyrstu leikjum sínum og rak auk þess þjálfarann Arnar Grétarsson í vikunni. Aðstoðarþjálfarinn Sigurður Víðisson mun stýra liðinu í leiknum. Hann er þrautreyndur þjálfari sem stýrði kvennaliðum um árabil en verður nú í fyrsta sinn við stjórnvölinn í efstu deild karla.

Stjarnan hefur hinsvegar byrjað vel, skorað sjö mörk og fengið fjögur stig í fyrstu tveimur leikjunum, og Garðbæingar virðast til alls líklegir í sumar. Þeir þurfa hinsvegar að yfirvinna gamlan draug. Stjarnan hefur nefnilega ekki unnið Breiðablik í efstu deild í Kópavogi í 23 ár, eða frá árinu 1994. Frá þeim tíma hafa Stjörnumenn komið 10 sinnum í heimsókn, tapað átta sinnum en tvisvar náð jafntefli.

Þetta er 25. leikur Breiðabliks og Stjörnunnar í efstu deild. Blikar, sem unnu 2:1 og 3:1 í fyrra, hafa unnið 13 leikjanna en Stjarnan aðeins fimm. Þá er þetta 50. mótsleikurinn á milli félaganna í meistaraflokki karla frá upphafi.

*Arnþór Ari Atlason hefur haft gott lag á að skora gegn Stjörnunni og hefur gert mark fyrir Blika í þremur af síðustu fjórum leikjum liðanna í deildinni.

Stigalausir Skagamenn við KR

Gömlu stórveldin KR og ÍA eigast við í Vesturbænum klukkan 17 í dag. Eftir tvo ósigra á heimavelli, gegn FH og Val, fá Skagamenn enn eitt erfiða verkefnið í byrjun móts. En þeir hugsa eflaust til sigursins sæta á KR-vellinum í fyrra, þegar Garðar Gunnlaugsson skoraði ævintýralegt sigurmark í uppbótartíma, 2:1, og kom ÍA á magnaða sigurbraut.

KR er með þrjú stig eftir fyrstu tvo leikina og Willum Þórsson og hans menn hafa eflaust engan áhuga á að misstíga sig aftur á heimavelli eins og í fyrstu umferðinni gegn Víkingi R.

Jafnræði hefur verið með KR og ÍA undanfarin ár en af átta viðureignum í efstu deild frá 2012 hafa félögin unnið þrjá leiki hvort.

Þetta verður 116. viðureign þeirra á Íslandsmóti frá 1946 og til þessa hefur ÍA unnið 46 leiki en KR 39.

*Morten B. Andersen tryggði KR sigur gegn ÍA í síðasta leik liðanna á Akranesi síðasta haust, 1:0.

Langþráður heimaleikur KA

Á Akureyri verður mikið um dýrðir í dag en kl. 18 leikur KA sinn fyrsta heimaleik í efstu deild frá 2004 þegar Fjölnir kemur í heimsókn og spilað er á Akureyrarvelli sem aldrei fyrr hefur verið tilbúinn fyrir leik jafn snemma vors.

Bæði lið hafa byrjað vel, eru bæði með fjögur stig eftir tvo leiki og báðir þjálfarar eygja því möguleika á að framlengja gott gengi enn um sinn.

KA og Fjölnir hafa aldrei áður mæst í efstu deild en eiga margar viðureignir sín á milli í 1. deild. Síðast mættust þau í Grafarvogi í júlí 2013 þar sem Carsten Pedersen skoraði sigurmark KA, 1:0, á 87. mínútu. Liðin höfðu skilið jöfn, 1:1, á Akureyri um vorið.

*Hallgrímur Mar Steingrímsson, sem hefur verið áberandi í liði KA í byrjun móts, skoraði sigurmark gegn Fjölni, 2:1, á Akureyrarvelli í 1. deildinni í ágúst 2012.

Góðar minningar Ólsara

Grindavík fær Víking frá Ólafsvík í heimsókn í dag klukkan 18 og þar mætast lið sem mjög margir spáðu að yrðu samferða niður í 1. deildina í haust.

Grindvíkingar hafa hinsvegar byrjað vel, jafntefli gegn Stjörnunni og sigur gegn Víkingi R., á meðan Ólafsvíkingar hafa tapað fyrir Val og KR.

Þessi tvö félög hafa aldrei áður mæst í efstu deild en háð nokkra harða hildi í 1. deildinni. Víkingar eiga góðar minningar úr síðustu heimsókn til Grindavíkur en þeir unnu þar stórsigur, 7:2, í byrjun september 2015 og tryggðu sér með því úrvalsdeildarsæti.

*Alfreð Már Hjaltalín skoraði í báðum leikjum liðanna í 1. deild 2015, fyrst í 2:0 sigri í Ólafsvík og svo í áðurnefndum stórsigri.

Skora Eyjamenn loksins?

ÍBV og Víkingur R. mætast í Eyjum í dag klukkan 17 og þar vonast Eyjamenn eftir sínu fyrsta marki á tímabilinu. Þeir eru með eitt stig eftir jafntefli við Fjölni og tap gegn Stjörnunni en Víkingar eru með 3 stig eftir sigur á KR og tap gegn Grindavík.

Í fyrra unnu Víkingar báða leiki liðanna, 3:0 í Eyjum og 2:1 í Fossvogi. Viðureignin á morgun verður sú 50. þeirra á milli í efstu deild, frá 1926, en ÍBV hefur unnið 21 leik og Víkingur 18. Liðin hafa ekki gert jafntefli í efstu deild í 27 ár, eða í 21 leik í röð.

*Vladimir Tufegdzic skoraði bæði mörkin þegar Víkingur vann ÍBV 2:1 í fyrrasumar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka