Stjarnan skellti Blikum og fór á toppinn

Daníel Laxdal, Stjörnunni, og Hrvoje Tokic ákveðnir í leiknum í …
Daníel Laxdal, Stjörnunni, og Hrvoje Tokic ákveðnir í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik er enn í leit að fyrsta sigrinum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu þetta árið. Stjarnan kom í heimsókn í Kópavoginn í þriðju umferð deildarinnar í kvöld, fór með 3:1-sigur af hólmi og skaust á toppinn með 7 stig eins og KA. Blikar eru í næstneðsta sætinu án stiga.

Fyrri hálfleikur var fjörugur á að horfa. Stjarnan byrjaði af meiri krafti áður en Blikar unnu sig jafnt og þétt inn í leikinn. Þegar fram á við kom náðu Blikar hins vegar ekkert að ógna og voru það Stjörnumenn sem fengu álitlegri færi. Staðan að loknum fyrri hálfleik var þó markalaus.

Þegar líða tók á síðari hálfleikinn fór hins vegar að draga til tíðinda. Blikar höfðu haldið boltanum ágætlega eftir hlé, en á 57. mínútu komust Stjörnumenn yfir. Jósef Kristinn Jósefsson sendi þá hárnákvæma sendingu inn á teig þar sem Brynjar Gauti Guðjónsson stökk hæst og skallaði í netið. 1:0 fyrir gestina úr Garðabænum.

Stjörnumenn tvíefldust við þetta og þurftu ekki að bíða lengur en í fimm mínútur eftir næsta marki. Guðjón Baldvinsson átti þá skot sem fór í höndina á Michee Efete, nýja manninum í vörn Blika, og vítaspyrna dæmd. Hólmbert Aron Friðjónsson fór á punktinn en Gunnleifur Gunnleifsson varði slaka spyrnu hans. Boltinn hrökk hins vegar aftur út í teiginn þar sem Guðjón var fyrstur að átta sig og kom honum í netið. Staðan orðin 2:0 fyrir Stjörnuna á aðeins fimm mínútna kafla.

Blikar gerðu tvöfalda skiptingu á 71. mínútu og aðeins mínútu síðar kom varamaðurinn Aron Bjarnason boltanum í netið. Martin Lund fékk þá boltann hægra megin í teignum og renndi honum fyrir þar sem Aron skoraði af stuttu færi. Staðan 2:1 fyrir Stjörnunni og mikil spenna fram undan á lokakaflanum.

Blikar fundu aukinn kraft eftir markið og fengu sín færi en inn vildi boltinn ekki. Þvert á móti var það Stjarnan sem innsiglaði sigurinn seint í uppbótartíma þegar Hilmar Árni Halldórsson skoraði eftir góðan undirbúning Baldurs Sigurðssonar.

Stjarnan uppskar því 3:1 sigur og er nú með 7 stig á toppi deildarinnar með jafnmörg stig og KA. Blikar eru í neðsta sæti án stiga.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl koma hingað á vefinn síðar í kvöld.

Breiðablik 1:3 Stjarnan opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka