Elskum að spila svona mikið

Berglind Björg Þorvaldsdóttir.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Berglind Björg Þorvaldsdóttir kom Breiðabliki á bragðið þegar liðið vann 2:0-sigur á Fylki í 4. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

„Þetta var erfiður leikur. Fylkisliðið barðist vel og lokaði þokkalega vel á okkur, svo þetta var erfið fæðing,“ sagði Berglind, en Blikar höfðu mikla yfirburði í leiknum en gekk illa að reka endahnútinn á sóknir sínar.

Fanndís Friðriksdóttir fór meidd af velli í hálfleik og hún er þekkt fyrir að leggja upp mikið af mörkum. „En þær sem komu inn á stóðu sig mjög vel og ég er mjög sátt við þær,“ sagði Berglind, en meðal annars lagði Sólveig Larsen upp seinna mark liðsins.

Blikar hafa unnið þrjá af fyrstu fjórum leikjum sínum og aðeins tapað fyrir toppliði Þór/KA nyrðra, en Berglind segir að það sé mikil barátta framundan.

„Við hefðum viljað vinna fyrir norðan, en við erum sáttar með þrjú stig í dag og höldum bara áfram. Deildin er mjög sterk í ár og þetta er mjög gaman. Það þarf að berjast í hverjum einasta leik og hver leikur er nánast eins og úrslitaleikur. Maður þarf að mæta rétt stemmdur í alla leiki,“ sagði Berglind.

Nú þegar aðeins er komið fram í miðjan maí eru engu að síður fjórar umferðir að baki, en þétt er spilað vegna lokakeppni EM kvenna í Hollandi í sumar.

„Það er miklu skemmtilegra, þá er maður bara að æfa minna og spila meira. Við elskum það, til þess er maður í þessu,“ sagði Berglind Björg Þorvaldsdóttir við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka