Yfirburðir Blika skiluðu þremur stigum

Rakel Hönnudóttir, fyrirliði Breiðabliks, reynir að leika á Tinnu Björk …
Rakel Hönnudóttir, fyrirliði Breiðabliks, reynir að leika á Tinnu Björk Birgisdóttur úr Fylki í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

Breiðablik vann sinn þriðja leik í Pepsi-deild kvenna í knattspyrnu þetta tímabilið þegar liðið fékk Fylki í heimsókn í 4. umferð deildarinnar í kvöld. Blikar höfðu mikla yfirburði í leiknum en þurftu að hafa þolinmæðina að vopni og það skilaði sér í 2:0-sigri þeirra. Breiðablik er með 9 stig eins og FH, þremur stigum á eftir Þór/KA sem er á toppnum með fullt hús stiga.

Blikar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en það beið þeirra þolinmæðisvinna að finna leiðina í gegnum varnarskipulag Fylkis. Eftir að hafa fengið nokkur færi var ísinn brotinn á 36. mínútu þegar Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði eftir laglega skyndisókn. Svava Rós Guðmundsdóttir bar þá boltann fram völlinn, Rakel Hönnudóttir átti stungusendingu á Berglindi sem kláraði vel. Staðan 1:0 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn var frekar bragðdaufur. Blikar voru margfalt meira með boltann en náðu þrátt fyrir það ekki að skapa sér mikið. Fanndís Friðriksdóttir hafði farið af velli vegna meiðsla í hálfleik og söknuðu heimakonur sköpunarkrafts hennar mikið.

Sókn Blika bar hins vegar ávöxt á ný á 77. mínútu. Varamaðurinn Sólveig Larsen lék þá með boltann á vinstri kantinum, kom honum á Andreu Rán Hauksdóttur sem hafði tíma til þess að leggja hann fyrir sig við vítateigslínuna og skila honum örugglega í vinstra hornið. Staðan 2:0 fyrir Breiðablik.

Yfirburðir Blika héldu áfram eftir markið en ekki fundu heimakonur leiðina þriðja sinni í marknet Fylkis, en Tinna Björk Birgisdóttir bjargaði þó einu sinni á línu fyrir Fylki og kom í veg fyrir að Berglind bætti við öðru marki sínu. 2:0-sigur Breiðabliks staðreynd og þriðja tap Fylkis í röð sömuleiðis.

Breiðablik og FH eru með 9 stig í öðru og þriðja sætinu en Fylkir er með þrjú stig í áttunda sæti.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um alla leiki kvöldsins í íþróttablaði Morgunblaðsins með morgni. Viðtöl koma hingað á vefinn síðar í kvöld.

Breiðablik 2:0 Fylkir opna loka
90. mín. Leikurinn er að fjara út.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka