Hver hefði spáð því í upphafi Íslandsmótsins í knattspyrnu að strax í 4. umferð myndu mætast tvö lið án aðalþjálfara sinna, sem væru báðir horfnir á braut?
En það er einmitt staðan fyrir viðureign Víkings R. og Breiðabliks í Fossvoginum í kvöld, klukkan 19.15. Arnar Grétarsson var rekinn frá Breiðabliki á dögunum og á föstudaginn hætti Milos Milojevic störfum hjá Víkingi.
Aðstoðarþjálfararnir Dragan Kazic hjá Víkingi og Sigurður Víðisson hjá Breiðabliki stýra liðunum í kvöld og þetta er annar leikur Sigurðar. Báðum liðum hefur vegnað illa, Blikar hafa tapað öllum þremur leikjum sínum og sitja á botninum en Víkingar hafa tapað tveimur í röð eftir sigur á KR í fyrsta leik og eru þremur stigum ofar í 10. sætinu.
Þegar horft er til sögunnar virðast sigurlíkur Breiðabliks ekki vera miklar í kvöld. Því hefur ekki tekist að vinna Víking í Fossvoginum í efstu deild frá árinu 1991. Þá varð einmitt Víkingur Íslandsmeistari en tapaði þó heimaleiknum við Blika, 0:2. Rögnvaldur Rögnvaldsson og Steindór Elíson skoruðu mörkin.
Frá þeim tíma hafa liðin mæst átta sinnum á Víkingsvellinum í efstu deild. Víkingar hafa unnið fimm leikjanna og þrisvar hefur orðið jafntefli. Það eru því 26 ár frá því Blikar fóru heim þaðan með þrjú stig í efstu deild.
Í fyrra unnu Víkingar heimaleikinn við Blika 3:1 þar sem Óttar Magnús Karlsson gerði þrennu fyrir heimamenn en Árni Vilhjálmsson skoraði mark Breiðabliks.
Þrennur eru ekki sérstaklega algengar í deildinni og það er því merkileg staðreynd að í síðustu sjö viðureignum Víkings og Breiðabliks hafa þrjár þrennur litið dagsins ljós. Björgólfur Takefusa gerði þrennu fyrir Víking í 6:2 sigri á Kópavogsvelli árið 2011, Árni Vilhjálmsson gerði þrennu fyrir Blika í 4:1 sigri á Kópavogsvelli árið 2014 og í fyrra var það áðurnefnd þrenna Óttars Magnúsar.
Í heildina er þetta 37. viðureign Víkings og Breiðabliks í deildinni. Víkingur hefur unnið 13 leiki og Breiðablik 10 en 13 sinnum hafa félögin skilið jöfn.
Þá er það athyglisverð staðreynd að Víkingur og Breiðablik mættust í bikarúrslitaleik áður en þau höfðu nokkru sinni leitt saman hesta sína í efstu deild. Það var árið 1971 þegar Víkingur vann Breiðablik 1:0 í úrslitaleik á Melavellinum en þá voru Víkingar nýbúnir að tryggja sér sæti í efstu deild, þar sem Blikar voru þá einmitt að ljúka sínu fyrsta tímabili í sögunni.
Fyrsti leikur þeirra í deildinni var því árið 1972 en þá vann Breiðablik sigur, 1:0, með marki Þórs Hreiðarssonar. Víkingar unnu seinni leikinn 2:1 þar sem Eiríkur Þorsteinsson skoraði bæði mörk Víkings en Þór var aftur á skotskónum fyrir Blika.