Hjá hvorum heldur bataferlið áfram?

Damir Muminovic og Arnar Már Guðjónsson ásamt fleirum í leik …
Damir Muminovic og Arnar Már Guðjónsson ásamt fleirum í leik Breiðabliks og ÍA í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

ÍA og Breiðablik hafa bæði náð að rétta aðeins sinn hlut eftir slæma byrjun á Íslandsmótinu í knattspyrnu og slást um mikilvæg stig í Pepsi-deild karla á Akranesvelli í kvöld klukkan 19.15 en fjórir leikir fara fram í deildinni í dag og kvöld.

ÍA tapaði fyrstu fjórum leikjum sínum en vann síðan stórsigur í Eyjum og er með 3 stig í ellefta og næstneðsta sæti. Breiðablik tapaði fyrstu þremur leikjunum en hefur síðan unnið Víking R. og Víking Ó og er með 6 stig í níunda sætinu.

Skagamenn unnu báða leiki liðanna í fyrra, 1:0 í Kópavogi þar sem Garðar Gunnlaugsson skoraði sigurmarkið og 1:0 á Akranesi þar sem Guðmundur Böðvar Guðjónsson skoraði sigurmarkið.

Sagan er líka með Skagamönnum sem hafa aðeins tapað þremur heimaleikjum af 26 fyrir Blikum í efstu deild. Blikar unnu á Akranesi árið 2015 með marki Arnþórs Ara Atlasonar og höfðu áður sótt þangað þrjú stig árin 1996 og 1999. Í heildina hefur ÍA unnið 32 leiki en Breiðablik 12 af 52 viðureignum félaganna í efstu deild frá 1971.

Stærsti sigur ÍA á Breiðabliki er 10:1 árið 1973 þegar Teitur Þórðarson skoraði sex mörk en stærsti sigur Blika kom árið 2008 þegar 17 ára gamall Jóhann Berg Guðmundsson var á meðal markaskorara í 6:1 sigri Kópavogsliðsins.

Aldrei áður mæst í deildinni

Víkingur í Ólafsvík tekur á móti KA klukkan 17 í dag en þetta er í fyrsta skipti sem félögin mætast í efstu deild.

Þau hafa hinsvegar margoft háð hildi í 1. deildinni, síðast árið 2015 þegar Víkingar unnu deildina og KA endaði í þriðja sæti. Þá gerðu þau jafntefli, 1:1, á Akureyri þar sem Emir Dokara kom Ólsurum yfir en Elfar Árni Aðalsteinsson jafnaði fyrir KA. Seinni leikurinn í Ólafsvík endaði 0:0.

Nýliðar KA eru með 8 stig eftir fyrstu fimm leikina í deildinni en Ólafsvíkingar sitja á botninum með 3 stig.

Fjórði sigur Fjölnis í röð?

Fjölnismenn freista þess að vinna Víking R. í fjórða skiptið í röð í efstu deild þegar liðin mætast í síðasta leik sjöttu umferðarinnar klukkan 20 í kvöld á Víkingsvellinum.

Fjölnir er með 7 stig en Víkingur 4 eftir fyrstu fimm umferðirnar. Víkingar spila fyrsta heimaleikinn eftir að Logi Ólafsson tók við stjórn liðsins í kjölfarið á brotthvarfi Milosar Milojevic.

Víkingur og Fjölnir hafa mæst sex sinnum í efstu deild og þeir leikir hafa allir farið fram undanfarin þrjú ár. Fjölnir vann báða leiki liðanna í fyrra, 2:1 heima og 2:1 úti, en í leiknum á Víkingsvelli skoraði Martin Lund bæði mörk Fjölnis og Bjarni Páll Runólfsson gerði mark Víkings. Í Grafarvogi skoruðu Þórir Guðjónsson og Igor Jugovic fyrir Fjölni en Alex Freyr Hilmarsson fyrir Víking.

Igor Taskovic mætir sínum gömlu félögum í Víkingi en hann gekk til liðs við Fjölni í vetur eftir að hafa spilað með Víkingi í fjögur ár og verið fyrirliði liðsins um skeið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka