Dramatískur sigur gegn Króatíu

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu gerði sér lítið fyrir og lagði Króatíu, 1:0, í gríðarlega þýðingarmiklum leik í undankeppni heimsmeistaramótsins á Laugardalsvelli í kvöld. Hörður Björgvin Magnússon skoraði dramatískt sigurmark á lokamínútunni en með sigrinum eru Ísland og Króatía jöfn á toppi riðilsins með 13 stig.

Fyrri hálfleikurinn var afar jafn og spennandi. Það var ljóst frá fyrstu mínútu að hvorugt liðið ætlaði að gera mistök og ekkert um opin færi lengst af. Það var hins vegar mikill kraftur í íslenska liðinu en erfiðlega gekk að finna Alfreð Finnbogason sem var einn í fremstu víglínu.

Hættulegasta færi Íslands í fyrri hálfleiknum fékk Gylfi Þór Sigurðsson þegar skot hans úr aukaspyrnu fór yfir varnarvegg Króata en rétt fram hjá. Gylfi lék lausum hala í svæðinu fyrir aftan Alfreð á meðan Emil Hallfreðsson og Aron Einar Gunnarsson héldu miðjunni saman. Úr varð mikil refskák og þegar flautað var til hálfleiks var staðan enn markalaus.

Leikurinn opnaðist aðeins meira eftir hlé og snemma í síðari hálfleiks fékk Nikola Kalinic besta færi leiksins fram að því en skaut fram hjá í úrvalsfæri af markteig. Pressan fór að aukast hjá Króötum um miðjan síðari hálfleikinn, en íslenska liðið gaf hins vegar enn fá færi á sér og refskákin hélt áfram.

Íslenska liðið pressaði mikið síðasta stundarfjórðunginn eða svo og dramatíkin átti eftir að verða allsráðandi. Á lokamínútu leiksins fékk Ísland dauðafæri þegar Jóhann Berg Guðmundsson skallaði fyrirgjöf Birkis Már Sævarssonar en það var naumlega varið.

Í kjölfarið fékk Ísland hornspyrnu sem Gylfi tók, boltinn fór inn á teiginn og þar var það Hörður Björgvin Magnússon sem kom honum yfir línuna. Hádramatík og allt ætlaði um koll að keyra á vellinum enda sigurmark leiksins og lokatölur 1:0 fyrir Ísland.

Ísland og Króatía eru nú efst og jöfn á toppi riðilsins með 13 stig. Úkraína kemur þar á eftir með 11 stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is en nánari umfjöllun og viðtöl má finna hér á vefnum í allt kvöld. Í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun verður einnig fjallað ítarlega um leikinn.

Ísland 1:0 Króatía opna loka
90. mín. Hörður B. Magnússon (Ísland) skorar 1:0 - JÁÁÁ! Eftir dauðafærið hjá Jóhanni Berg fékk Ísland hornspyrnu. Hornspyrnan inn á teiginn frá Gylfa inn í pakkann á teignum og Hörður Björgvin kemur boltanum í netið. Það gjörsamlega ærist allt!!
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert