„Þetta var ótrúlega mikilvægt, sérstaklega þar sem Tyrkland og Úkraína unnu sína leiki. Það er ansi sterkt að vinna Króatíu og þetta sýnir hversu góðir við erum orðnir,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson eftir sigur Íslands á Króatíu í undankeppni HM í knattspyrnu í gærkvöld.
Ísland er áfram í 2. sæti síns undanriðils eftir sigurinn, nú jafnt Króatíu að stigum og tveimur stigum á undan Tyrklandi og Úkraínu:
„Við hefðum getað endað kvöldið í 4. sæti sem hefði verið mjög erfitt, en þessi riðill er bara galopinn. Næsti leikur, við Finna í september, er núna lykilleikur og við vitum að Finnar eru gríðarlega sterkir. Þeir sýndu það hérna á Laugardalsvelli. Það er mjög erfitt að brjóta þá niður,“ sagði Jóhann.
Ísland hafði átt erfitt uppdráttar í fyrri leikjum gegn Króatíu og eins konar Króatíugrýla virtist í mótun. Hún var hins vegar kveðin vel í kútinn:
„Auðvitað vissum við hvernig fyrri leikir höfðu farið gegn þeim. Þeir eru hrikalega sterkir á heimavelli en við töpuðum ekki fyrir þeim hérna á Laugardalsvelli síðast, og vorum ekkert smeykir eins og við sýndum núna, sérstaklega í fyrri hálfleik. Við sýndum að það skiptir voðalega litlu máli hvaða lið mætir hingað á Laugardalsvöll, við getum strítt hverjum sem er og það er ansi gott að vinna Króatíu hérna. Þetta er alvöru gryfja,“ sagði Jóhann.
Sjá allt um leik Íslands og Króatíu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag