Bubalo ekki með viðhorf til fyrirmyndar

Ásmundur Arnarsson
Ásmundur Arnarsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fram, var ekki sáttur með leik sinna manna eftir 2:0 tap gegn Fylki í 7. umferð Inkasso-deildarinnar, 1. deildar karla í knattspyrnu.

„Það er alltaf leiðinlegt að tapa og við erum ekki alveg sáttir við okkar leik í dag. Þeir voru bara grimmari en við og á undan í flesta bolta og við vorum undir í þessum leik,“ sagði hann eftir leikinn en Fram mistókst að færa sig ofar í töflunni í kvöld og er áfram í þriðja sætinu.

„Það er alltaf áhyggjuefni að tapa en þessi deild er jöfn, það geta allir unnið alla og við förum í næsta leik til þess að ná í þrjú stig.“

Það vakti athygli að Ivan Bubalo, markahæsti leikmaður deildarinnar með sex mörk, vermdi varamannabekk Fram í allt kvöld en Ásmundur gagnrýndi framferði hans eftir síðasta leik.

„Hann er ekki búinn að standa sig nógu vel og er ekki með viðhorf sem er til fyrirmyndar en hann kemur til baka.“

Eftir ágæta byrjun hefur Fram nú tapað tveimur leikjum í röð en Ásmundur hefur engar sérstakar áhyggjur og horfir til næsta leiks.

„Við þurfum að þétta raðirnar, safna kröftum og mæta ferskir í næsta leik. Stærsti hluti deildarinnar ætlar sér að fara upp og við þar á meðal en þú verður bara að hugsa einn leik í einu í þessu og ná í eins mörg stig og þú getur, gamla klisjan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert