Ef marka má söguna gætu mörg mörk litið dagsins ljós á Kópavogsvelli í kvöld þegar Breiðablik tekur þar á móti Grindavík í lokaleik níundu umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu.
Þetta er fyrsta viðureign liðanna í fimm ár, eða síðan Grindavík lék síðast í deildinni árið 2012. En í 22 leikjum félaganna á milli í efstu deild frá 1995, þegar Grindavík var þar í fyrsta skipti, hafa verið skoruð 86 mörk, eða rétt tæplega fjögur mörk í leik.
Og samt enduðu þrír af fyrstu fjórum leikjum liðanna með 0:0 jafntefli og þann fimmta vann Grindavík 1:0 með marki Grétars Hjartarsonar.
En leikur númer tvö, á Grindavíkurvelli í lokaumferðinni 1995, gaf tóninn því Grindavík vann hann 6:3 þar sem Tómas Ingi Tómasson skoraði fjögur marka liðsins og lagði upp hin tvö fyrir Ólaf Ingólfsson.
Þessi óvenjulega lokastaða í leik, 6:3, var aftur á dagskrá þegar liðin mættust á Kópavogsvelli árið 2008 og aftur voru það Grindvíkingar sem skoruðu sex sinnum hjá Blikum. Þá gerðu Tomasz Stolpa og Andri Steinn Birgisson tvö mörk hvor fyrir þá.
Grindavík vann 4:3 á Kópavogsvelli árið 2000 þar sem Sinisa Kekic gerði tvö mörk fyrir Grindavík og Ívar Sigurjónsson tvö fyrir Breiðablik.
Þá hafa þrír leikir liðanna á milli endað 4:2. Grindavík unnið tvisvar með þeirri markatölu en síðast þegar þau mættust á Grindavíkurvelli, árið 2012, unnu Blikar 4:2. Arnar Már Björgvinsson, Tómas Óli Garðarsson og Rafn Andri Haraldsson, sem allir leika í 1. deild í ár, skoruðu fyrir Blika, sem og Kristinn Jónsson sem nú leikur með Sogndal í Noregi. Fyrir Grindavík skoruðu Óli Baldur Bjarnason og Hafþór Ægir Vilhjálmsson.
Grindvíkingar mæta til leiks í öðru sæti deildarinnar með 17 stig og geta náð toppliði Vals með sigri. Blikar eru í áttunda sæti með 10 stig en færu í fimmta eða sjötta sætið með sigri. Leikurinn hefst kl. 20 á Kópavogsvelli.
Hinn leikur kvöldsins fer fram á Víkingsvellinum í Fossvogi þar sem Víkingur fær Víking í heimsókn kl. 19.15.
Þessi lið hafa aðeins einu sinni áður mæst í efstu deild, og það var í fyrra. Þá vann Víkingur R. heimaleik sinn 2:0 með tveimur mörkum frá Gary Martin. Seinni leikurinn í Ólafsvík endaði 1:1 þar sem Kenan Turudija skoraði fyrir Víking Ó. en Alex Freyr Hilmarsson fyrir Víking R.
Víkingur R. er með 11 stig í sjötta sæti deildarinnar en færi upp í fimmta sætið með sigri. Víkingur Ó. er með 7 stig á botninum en kæmist með sigri í níunda eða tíunda sæti.