„Spennan er svo sannarlega að magnast og það er gríðlega mikil tilhlökkun,“ sagði landsliðskonan Elín Metta Jensen við mbl.is fyrir æfingu íslenska kvennalandsliðsins á Laugardalsvellinum í dag.
Slétt vika er þar til Ísland leikur sinn fyrsta leik á Evrópumótinu í Hollandi en fyrstu andstæðingar Íslendinga verða Frakkar.
„Undirbúningur okkar hefur gengið mjög vel. Við erum búnar að ná að eyða góðum tíma saman heima og höfum prófað ýmislegt annað heldur en að vera í fótbolta. Við erum búnar að fara í jóga, fara í Mjölni saman og svo vorum við í æfingabúðum á Selfossi um síðustu helgi. Við höfum náð að hrista hópinn mjög vel saman og erum tilbúnar í átökin á EM,“ sagði hin 22 ára gamla Elín Metta, leikmaður Vals, við mbl.is. Hún hefur spilað 28 landsleiki og skorað í þeim 5 mörk en Elín Metta er á leið á sitt annað Evrópumót. Hún var í landsliðshópnum sem lék í Svíþjóð fyrir fjórum árum.
„Þetta er stærsta verkefnið sem ég er að fara í með landsliðinu. Ég bý yfir góðri reynslu eftir að hafa farið á EM í Svíþjóð. Kannski verður mitt hlutverk núna aðeins öðruvísi en þá. Ég fæ vonandi að spila aðeins meira heldur en þá. Ég spilaði í tíu mínútur á móti Svíum. Það var mögnuð tilfinning og stærsti leikur sem ég hef spilað á ferlinum,“ sagði Elín Metta.
„Fyrsta markmiðið sem við höfum sett okkur er að komast upp úr riðlinum og ég hef fulla trú á að okkur takist það. Mér finnst ekkert verra að mæta Frökkunum í fyrsta leiknum. Ég myndi segja að pressan væri meira á þeim heldur en okkur. Það búast kannski flestir við því að Frakkarnir vinni okkur og við getum nýtt okkur það. Við getum tekið karlalandsliðið til fyrirmyndar og reynt að koma á óvart á EM eins og þeir gerðu fyrir ári síðan.
Það hefur skapast góð stemning í kringum liðið. Fjölmiðlaumfjöllunin hefur verið miklu meiri núna heldur en fyrir fjórum árum. Það er meira púður lagt í allt sem kemur að liðinu, bæði frá Knattspyrnusambandinu og fjölmiðlum, og það er meiri alvara yfir þessu. Mér skilst að Íslendingar hafi keypt flesta miða á EM af liðunum sem taka þátt í mótinu sem er alveg magnað og sýnir hversu þjóðin hefur stórt hjarta. Núna er ég að reyna að útvega fjölskyldunni búninga. Hún ætlar að fjölmenna til Hollands og til að mynda á ég litlar frænkur í Svíþjóð sem eru mjög spenntar að sjá stóru frænku sína spila. Þær ætla að mæta á mótið,“ sagði Elín Metta.