Breiðablik skellti KA þegar liðin áttust við í 12. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu, Pepsi-deildarinnar, á Akureyrarvellinum í dag. Lokatölur urðu 4:2 fyrir Breiðablik en það var Höskuldur Gunnlaugsson sem lagði upp öll fjögur mörk Blika. Þetta var fyrsti sigur Breiðabliks síðan 5. júní.
Leikurinn var aðeins þriggja mínútna gamall þegar fyrsta markið leit dagsins ljós. Þar var að verki Gísli Eyjólfsson eftir flottan undirbúning frá Höskuldi Gunnlaugssyni.
KA-menn jöfnuðu þó leikinn á 26. mínútu en þar var að verki Daninn Emil Lyng eftir fyrirgjöf frá Almarri Omarssyni. Emil Lyng var svo aftur á ferðinni níu mínútum síðar þegar hann skoraði með skoti eftir sendingu Ásgeirs Sigurgeirssonar og staðan allt í einu orðin 2:1 fyrir KA, þannig var hún í hálfleik.
Eins og í fyrri hálfleik skoraði Breiðablik mjög snemma í seinni hálfleik. Nú eftir aðeins tvær mínútur. Martin Lund komst þá einn í gegn eftir langa sendingu frá Höskuldi og jafnaði metinn í 2:2.
Breiðablik komst svo aftur yfir á 59. mínútu. Damir Muminovic skoraði þá með skalla eftir fyrirgjöf frá Höskuldi. Þriðja stoðsending Höskuldar í leiknum og staðan orðin 3:2 fyrir Blika.
Breiðablik gerði svo út um leikinn með marki frá Aroni Bjarnasyni undir lok leiks. Þar var það enn og aftur Höskuldur sem lagði upp markið. Fjórða stoðsending hans í leiknum sem er einstakt.
Eftir leikinn er KA í 5. sæti deildarinnar með 15 stig en Breiðablik er í því áttunda einnig með 15 stig.