„Ég er bara mjög sáttur með minn leik og hjá öllu liðinu bara, karaktersigur hjá okkur,“ sagði Höskuldur Gunnlaugsson, leikmaður Breiðabliks, við mbl.is eftir 4:2 sigur gegn KA í 12. umferð Pepsi-deildar karla í dag. Höskuldur gerði sér lítið fyrir og lagði upp fjögur mörk í leiknum.
Breiðablik kom til baka í seinni hálfleik eftir að hafa verið 2:1 undir í hálfleik.
„Við vorum alveg sáttir við okkar spilamennsku í fyrri hálfleik svo við vorum ekkert að stressa okkur þrátt fyrir að vera undir. Ákváðum bara að vera aðeins skilvirkari og nýta færin sem við gerðum svo.“
„KA er með mjög gott sóknarlið og þeir bjóða upp á markasúpu í báða enda. Þeir eru kannski sterkari sóknarlega en þeir eru varnarlega. Við erum mjög sterkir sóknarlega og varnarlega þannig þetta eru bara tvö góð lið.“
Undanfarið hafa verið sögusagnir um það að Höskuldur gæti verið á leið út í nám til Bandaríkjanna. Spurður um það sagði Höskuldur:
„Ég er bara að skoða það, ekkert staðfest í því.“