Björgvin Stefánsson sá um Þórsara

Björgvin Stefánsson skoraði tvö mörk í kvöld.
Björgvin Stefánsson skoraði tvö mörk í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björgvin Stefánsson skoraði bæði mörk Hauka sem höfðu betur gegn Þór, 2:0, í 15. umferð Inkasso-deildarinnar, 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Bæði mörkin komu á síðasta korteri leiksins. 

Þórsarar voru töluvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og fengu þeir nokkur ákjósanleg færi sem þeim tókst ekki að nýta. Atli Sigurjónsson var allt í öllu í sóknarleik Þórs í fyrri hálfleik en hann gekk í raðir Þórs frá KR í vikunni. 

Staðan var hins vegar markalaus í hálfleik og Haukarnir refsuðu í síðari hálfleik sem hafði verið nokkuð rólegur þegar Björgvin Stefánsson kom Haukum í 1:0 á 77. mínútu með góðri afgreiðslu eftir að hann fór illa með vörn Þórsara. Á 88. mínútu bætti hann við sínu öðru marki, sem var ekki ósvipað því fyrra. Hann fékk þá langa sendingu frá vörninni sem hann tók við, lék á nokkra varnarmenn og skoraði með góðu skoti. 

Haukar fóru upp í fjórða sæti deildarinnar með sigrinum og er liðið nú með 26 stig, einu meira en Þór sem er sæti fyrir neðan. 

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu á mbl.is. 

Haukar 2:0 Þór opna loka
90. mín. Alexander Freyr Sindrason (Haukar) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert