Breiðablik sótti þrjú stig vestur þegar liðið heimsótti Víking Ólafsvík í 16. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í kvöld. Blikar fóru með þægilegan 3:0-sigur af hólmi og komust með sigrinum upp fyrir Ólsara, sem eru nú þremur stigum frá falli.
Blikar voru mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleiknum og uppskáru tvö mörk. Fyrst skoraði Gísli Eyjólfsson sannkallað draumamark á 12. mínútu þegar hann þrumaði boltanum upp í markvinkilinn utan teigs og kom getstunum verðskuldað yfir.
Áfram sóttu Blikar og uppskáru annað mark á 40. mínútu. Aron Bjarnason tók þá á rás, fór illa með vörn Víkinga og renndi boltanum fyrir þar sem Sveinn Aron Guðjohnsen rak smiðshöggið á laglega sókn. Staðan 2:0 fyrir Breiðablik í hálfleik.
Aron Bjarnason var svo sjálfur á ferðinni snemma í síðari hálfleiknum, en hann nýtti sér þá slæm mistök í vörn Ólsara og skoraði framhjá Cristian Martínez í markinu á 53. mínútu og staðan orðin 3:0.
Leikurinn var nokkuð tíðindalítill eftir þriðja markið. Blikar stjórnuðu leiknum og Víkingar komust lítt áleiðis. Lokatölur 3:0 fyrir Breiðablik.
Blikar eru nú með 21 stig í 8. sætinu en Víkingar eru sæti neðar með 19 stig, þremur stigum á undan ÍBV sem situr í fallsæti.
Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl koma inn á vefinn síðar í kvöld.