Sjaldan sem maður hittir hann svona vel

Gísli Eyjólfsson skoraði glæsilegt mark í kvöld.
Gísli Eyjólfsson skoraði glæsilegt mark í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta var virkilega gott í dag, við lögðum leikinn mjög vel upp og fórum mjög vel eftir skipulaginu,“ sagði Gísli Eyjólfsson, leikmaður Breiðabliks, í samtali við mbl.is eftir 3:0-sigur liðsins á Víkingi í Ólafsvík í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Gísli kom Blikum á bragðið með sannkölluðu draumamarki þegar hann þrumaði að marki utan teigs og boltinn fór beint í vinkilinn.

„Það var sætt að sjá hann inni, það er sjaldan sem maður hittir hann svona vel. Ég vissi af einni þúfu þarna svo hann skoppaði vel áður en ég hitti hann, annars hefði hann aldrei verið inni,“ sagði Gísli léttur í bragði.

Með sigrinum fóru Blikar upp fyrir Ólafsvíkinga, en tap hefði sogað liðið niður í fallbaráttu.

„Við verðum að fara að hætta að horfa niður fyrir okkur og fara að horfa upp. Við viljum fara miklu ofar en þetta, enda ekki búið að vera það sem við höfum ætlað okkur í sumar,“ sagði Gísli, en hann kann vel við sig í Ólafsvík þar sem hann spilaði sem lánsmaður um tíma í fyrra.

„Það er gott að vera hérna, frábært fólk í kringum klúbbinn og gaman að koma hingað aftur enda fallegur bær,“ sagði Gísli Eyjólfsson við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka