Fanndís rétt náði að segja fjölskyldunni frá

Fanndís Friðriksdóttir.
Fanndís Friðriksdóttir. mbl.is/Golli

„Þetta hljómar hrikalega spennandi,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í dag eftir að fréttir bárust af því að hún væri gengin til liðs við franska liðið Marseille frá Breiðabliki. Málið er þó ekki alveg svo einfalt.

Hún hefur ekki enn skrifað undir samning við franska félagið, en hún heldur utan í kvöld til þess að skoða aðstæður og til þess að ganga frá síðustu lausu endunum. Á borðinu bíður svo samningur sem verður annaðhvort til eins árs, eða einnig með möguleika á framlengingu um ár til viðbótar. Gangi það eftir verður hún fyrsta íslenska knattspyrnukonan sem spilar í Frakklandi.

„Ég fékk samþykki á það að koma út að skoða og ef mér líst ekki á þá nær það ekki lengra. En miðað við það sem mér er sagt þá hlýtur þetta að vera almennilegt enda er þetta risaklúbbur. Ég hef enga trú á öðru,“ sagði Fanndís við mbl.is, en hún segir að aðdragandinn sé ekki langur.

„Þetta er að gerast svolítið hratt, ég rétt náði að segja kærastanum frá þessu og fjölskyldunni áður en þetta fór út um allt,“ sagði Fanndís létt í bragði, en hún hefur áður reynt fyrir sér í atvinnumennsku. Hún spilaði þá í Noregi.

Búin að fá helling af fyrirspurnum

„Þetta er töluvert annað en Noregur enda miklu stærri deild og miklu stærri félag en ég var nokkru sinni hjá í Noregi. Ég fór til Marseille í fyrra að horfa á strákana [á EM í Frakklandi] svo ég hef komið þarna einu sinni áður. Þetta er allt í lagi staður sko,“ sagði Fanndís og hló, en Marseille stendur við suðurströnd Frakklands við Miðjarðarhafið.

Hún segir að eftir Evrópumótið í Hollandi í sumar hafi hjólin farið að snúast í hennar málum, en ekkert jafnáhugavert og þetta komið upp áður.

„Ég er búin að fá helling af fyrirspurnum frá liðum en vildi ekki stökkva á hvað sem er. Svo kom þetta upp og hljómaði hrikalega spennandi,“ sagði Fanndís. Gefið að hún muni skrifa undir þá yfirgefur hún Breiðablik í engu nema góðu.

„Ég hef alltaf lagt mig 100% fram hjá Breiðabliki og það eru allir sáttir við mig. Ég hef gefið allt mitt hér í gegnum tíðina og félagið hefur gert allt sitt til þess að gera mig að betri leikmanni. Hér skilja allir sáttir og allir samgleðjast mér mikið,“ sagði Fanndís Friðriksdóttir við mbl.is.

Fanndís Friðriksdóttir í leik gegn Frökkum á EM.
Fanndís Friðriksdóttir í leik gegn Frökkum á EM. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert