Markaþurrð Akkilesarhællinn

Skagamaðurinn Hafþór Pétursson í baráttu við Blikann Aron Bjarnason í …
Skagamaðurinn Hafþór Pétursson í baráttu við Blikann Aron Bjarnason í Kópavoginum í kvöld en sá síðarnefndi innsiglaði sigur Breiðabliks. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Mér fannst svo ekki hafa verið ósanngjarnt að við hefðum skorað tvö til þrjú mörk til viðbótar, miðað við færin sem við fengum, en það hefur verið okkar Akkilesarhæll og eitthvað sem við þurfum að vinna í,“ sagði Milos Milojevic, þjálfari Breiðabliks, eftir 2:0 sigur á ÍA í Kópavoginum í kvöld þegar liðin mættust í 17. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu, Pepsi-deildarinnar.

„Mér fannst þetta ekki okkar besti leikur, erfitt að spila við Skagamenn sem komu vel gíraðir til leiks eftir að hafa gert breytingar í þjálfarateyminu og sem vildu að sjálfsögðu sýna að þeir geta betur en þeir hafa gert. Ég sagði í undirbúningi fyrir þennan leik að þetta er gott lið og góðir einstaklingar en þegar hlutirnir ganga ekki þá ganga þeir ekki. Kaflann sextugasta til sjötugasta og fimmta mínúta voru Skagamenn meira með boltann þó að þeir væru ekkert endilega að skapa eitthvað meira og við gáfum þeim stjórn á leiknum.“

Leið ekki vel einu marki yfir

Aron Bjarnason átti skotið, sem varð að sjálfsmarki Skagamanna og skoraði síðan sjálfur síðara markið en hefði viljað fá það fyrr. „Mér fannst við stjórna fyrri hálfleik alveg en erum komnir yfir og föllum aðeins aftar þegar Skagamenn sækja en við vorum oft klaufar að sækja ekki betur á þá. Tvö-núll er bara mjög gott en manni leið ekkert sérlega vel að ná ekki öðru marki en svo loks náðum við því þó það hefði mátt koma fyrr en þetta var bara gott,“ sagði Aron eftir leikinn. 

Held að við höfum náð að kveðja falldrauginn

Elfar Freyr Helgason, varnarjaxl Blika, fékk fyrir leikinn viðurkenningu frá félaginu fyrir að hafa fyrir skömmu leikið 200 leiki fyrir þá grænklæddu en honum fannst leikurinn sjálfur ekki erfiður. „Mér fannst við fá helling af færum með hjólhestaspyrnu og skot í stöng svo við hefðum getað unnið þennan leik stærra. Ég veit ekki hvað okkur vantaði í þennan leik, það kemur betur í ljós þegar við spilum við sterkari liðin því það hefur ekki reynt neitt sérstaklega mikið á okkur í þessum leik og gegn Víkingi frá Ólafsvík. Það segi ég með allri virðingu fyrir þeim en þau gerðu okkur ekki erfitt fyrir og við spiluðum eins og við vildum,“ sagði Elfar Freyr eftir leikinn og segir lítið um stöðu liðsins.   

„Ég held að við höfum náð að kveðja falldrauginn, sem er ágætt og nú er bara gamla klisjan að taka einn leik fyrir í einu en við erum ekkert að spá í Evrópusæti og slíkt, spáum bara í næsta leik.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka