Valur náði níu stiga forskoti á toppi úrvalsdeildar karla í knattspyrnu, Pepsi-deildarinnar, með 1:0-sigri sínum gegn Breiðabliki í 18. umferð deildarinnar á Hlíðarenda í kvöld.
Blikar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik, en Aron Bjarnason og Gísli Eyjólfsson voru potturinn og pannan í sóknarleik Breiðabliks. Leikmenn Breiðabliks náðu hins vegar ekki að brjóta ísinn með marki.
Valsmenn komu af meiri krafti inn í seinni hálfleikinn og jafnræði var með liðunum framan af seinni hálfleiknum. Valsarar urðu öflugri og öflugri eftir því sem leið á leikinn og virtust finna lyktina að sigurmarki.
Það var Kristinn Ingi Halldórsson sem tryggði Val stigin þrjú þegar hann fylgdi eftir föstu og hnitmiðuðu skoti Einars Karls Ingvarssonar og skoraði sigurmarkið með skoti af stuttu færi.
Valur er í efsta sæti deildarinnar með 40 stig eftir þennan sigur, en Valur er níu stigum á undan Stjörnunni sem er í öðru sæti. Blikar eru hins vegar með 24 stig í sjöunda sæti deildarinnar, en Breiðablik er fjórum stigum frá sæti í Evrópukeppni og fimm stigum frá fallsæti.